Össur segir Dag hafa verið áberandi bestan í kvöld og einn oddvita minnihlutans hafa skákað Hildi

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar segir Dag B. Eggertsson, borgarstjóra hafa verið áberandi bestan í sjónvarpskappræðum á RÚV í kvöld.

Hann segir alla oddvita meirihlutaflokkanna hafa átt fína spretti í kvöld. „Dagur B. Eggertsson var þó áberandi bestur og hefur líklega aldrei verið jafn öruggur og þéttur. Hann, og Þórdís Lóa, slökktu ítrekað í oddvita Sjálfstæðisflokksins – t.d. í umræðum um skólamál og kjarasamninga kennara.“

Hann segist vera aðdáandi Þórdísar Lóu og segir Össur að Líf Magneudóttir og Dóra Pírati hafi einnig staðið sig frábærlega í kvöld.

„Þennan meirihluta vil ég áfram og kýs Dag B. Eggertsson af ástríðu og gleði á laugardag.“

Kolbrún betri hríð að meirihlutanum en Hildur

Össur segir það hafa vakið athygli að Kolbrún Baldursdóttir frá Flokki fólksins hafi gert miklu árangursríkari hríð að meirihlutanum en Hildur Björnsdóttir.

„Kanski gengi Hildi betur ef hún talaði ekki einsog hríðskotabyssa. Hún hefur rekið skrítna kosningabaráttu, sem virkar einsog framhald af nýliðnu prófkjöri þar sem þess virðist vandlega gætt að sýna engann úr prýðilega öflugum hópi annarra frambjóðanda. Það er óvarlegt – og flokksmenn gleyma því líklega ekki þegar fyrirsjáanlegar hrakfarir verða gerðar upp.“