Össur hundfúll með Kristjönu og handboltaþríeykið: „Kunna menn ekki einu sinni mannasiði?“

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, segir að hann sé „hundfúll“ með handboltasjónvarp RÚV á EM sem stendur nú yfir. Ástæðan sé þáttastjórnun Kristjönu Arnardóttur og þríeyki Ólafs Stefánssonar, Dags Sigurðssonar og Loga Geirssonar.

Hann segir miklu betra að hlusta á Tómas Þór, Margréti Láru og Eið Smára tala um knattspyrnu. „Tómas á heiður skilinn fyrir að vera ekki nógu písí til að slaufa þeim breyska en dásamlega dreng fyrir demóna sem hrjá alltof marga. Þetta fólk kann að tjá sig um sína gullnu íþrótt svo alþýðan skilji,“ segir Össur á Facebook.

„Því segir ég þetta að ég er hundfúll eftir að hafa horft á þrjá landsleiki í handbolta með Kristjönu Arnardóttur íþróttastjóra RÚV og þremur silfurhetjum – sem allir bjuggu yfir snilld sem næstum tók tárum á sínum tíma og lyftu lífi heillar þjóðar. En ég skil ekkert þegar þessi ferningur talar um “þristi” eða “sexur” og í kvöld um einhvern Danna,“ segir Össur.

„Hvorki dr. Árný né Hr. Gúggul gátu sagt mér hver er Danni og stjórnandinn gerði enga tilraun til að skýra dulmál viðmælenda sinna.“

Össur segir þetta of algengt: „Svona var þetta líka hjá sama stjórnanda á síðasta stórmóti, þar sem tækniyrði og gælunöfn leikmanna voru notuð án þess að hún gerði nokkru sinni tilraun til að skýra það fyrir ræflunum sem horfa á alla landsleiki af ást og djúpum áhuga en ekki bara þjóðrækni.“

Þetta er ekki eina gagnrýnin:

„Og fyrst ég er byrjaður að ranta þá fer það líka í mínar fínustu taugar – og merginn og blóðið líka – þegar stjórnandi lætur gamlar stórstjörnur gagnrýna óþyrmilega unga drengi sem standa sig stórkostlega, stíga upp og verða leiðtogar þegar Covid hefur lagt hálft landsliðið að velli. Kunna menn ekki einu sinni mannasiði?“

Hann er þó ánægður með Loga Geirsson:

„ Hann er með snotrari töffurum á skjánum og þegar hann byrjaði með hárgel um árið stóð ég svo fast með honum að ég spurði hann í skilaboðum hvar ég gæti keypt gelið. Ekki bara til að vera eins flottur og hann – sem þó er gamall draumur – heldur af því maður stóð með sínu liði, sínum drengjum, með silfurliðinu út í eitt og vildi að þeim gengi vel í öllu, ekki bara handbolta heldur líka lífinu.“

Stóra spurning Össurar er þó: „Hver er þessi Danni?“ Er hann líklega að tala um Daníel Þór Ingason.