Óspennandi listi í Kraganum

Sjálfstæðisflokkurinn þurfti nauðsynlega á endurnýjun að halda við uppstillingu framboðslista síns í Suðvesturkjördæmi. Vonir voru bundnar við að nýir frambjóðendur næðu góðum árangri í prófkjörinu sem lauk í gær. Þær vonir brugðust. Engin endurnýjun varð.

Þingmenn flokksins í kjördæminu röðuðust allir fjórir í fjögur efstu sætin. Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason eru báðir komnir á sjötugsaldur og nálgast óðfluga lok síns stjórnmálaferils án þess að státa af langri afrekaskrá. Síðast þegar prófkjör var haldið í Kraganum var Bryndís Haraldsdóttir færð upp í annað sætið úr því fimmta vegna þess að þá hlutu engar konur framgang.

Í gær endurtók sagan sig – ein kona í fimm efstu sætunum.Ekki getur slík uppstilling á framboðslista talist sterk átímum síaukinnar kröfu kjósenda um kynjajafnrétti – kröfu allra kjósenda, og ekki síst þeirra yngri. Þessi staðreynd styrkir vígstöðu Viðreisnar í kjördæminu þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir leiðir lista flokksins af metnaði og myndarskap. Sama má segja um Samfylkinguna með Þórunni Sveinbjarnardóttur í efsta sæti. Líkt og Þorgerður erhún fyrrverandi ráðherra.

Sjálfstæðisflokkurinn í Kraganum hefði nauðsynlega þurft áandlitslyftingu að halda, sem mögulega hefði náðst ef Arnar Þór Jónsson dómari hefði endað ofar á listanum. Litlu munaði – en nægu þó – niðurstaðan hjá honum varð fimmta sætið.

Lítill stuðningur við Karen Halldórsdóttur bæjarfulltrúa í Kópavogi vekur athygli. Þá ber ekki á öðru en að Vilhjálmi Bjarnasyni hafi verið hafnað og lítið ber á frjálslyndi í sex efstu sætunum. Þá er það mikill veikleiki hjáSjálfstæðisflokknum að geta ekki teflt fram neinum frambjóðanda úr Hafnarfirði sem er 30 þúsund manna bæjarfélag. Hafnfirðingurinn í efsta sæti Viðreisnar,Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, brosir líkast til yfir því.

Fari Sjálfstæðisflokkurinn eftir niðurstöðu prófkjörsins verður Óli Björn Kárason í baráttusæti flokksins í Kraganum, því fjórða.

Erfitt verður að rífa upp stemningu í kringum þá stöðu.

Mögulegt er því að flokkurinn fái einungis þrjá menn kjörna í Kraganum í haust.

- Ólafur Arnarson