Óskar stendur í stórræðum í skugga ólæknandi krabbameins

Óskar Finnsson matreiðslumeistari stendur í stórræðum þessa dagana en hann vinnur nú að opnun veitingastaðarins Finnsson bistró í Kringlunni ásamt fjölskyldu sinni.

Arnar Gauti tók hús á Óskari í þætti sínum Sir Arnar Gauti sem sýndur var á Hringbraut í gærkvöldi og er óhætt að segja að viðtalið hafi verið fróðlegt og skemmtilegt. Óskar hefur mikla ástríðu fyrir þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur og verður nýi staðurinn í Kringlunni án efa hinn glæsilegasti.

Í þættinum sýndi Óskar honum nýja staðinn sem stefnt er að því að opna í lok aprílmánaðar. Í viðtalinu sagði Óskar að um væri að ræða eins konar gæluverkefni fjölskyldunnar og markmiðið væri að pakka löngum ferli fjölskyldunnar í veitingageiranum í einn stað.

Í viðtalinu viðurkennir Óskar að þegar sú hugmynd kom upp að opna veitingastað í Kringlunni hafi hann verið fullur efasemda. Eftir að hafa sofið á hugmyndinni var hann þó fljótur að átta sig á þeim tækifærum sem eru til staðar í þessu sögulega verslunarhúsi. „Hér er alltaf gott veður, það er alltaf gott veður í Kringlunni og það er mikill kostur,“ segir hann.

Óskar opnaði sig um veikindi sín í viðtali við Morgunblaðið á dögunum en hann greindist með ólæknandi krabbamein í höfði, Glioblastoma, fyrir rúmu ári. Viðtalið vakti töluverða athygli enda skein æðruleysi Óskars í gegn. Í viðtalinu sagðist hann gera allt sem í hans valdi stendur til að lengja líf sitt en meðallíftími fólks sem greinist með krabbamein af þessu tagi er ekki nema um eitt og hálft ár.

Lokaorð Óskars í viðtalinu lýstu viðhorfi hans til veikindanna ágætlega: „Þegar kallið kemur og ég þarf að fara að sinna veislum annars staðar, þá get ég með góðri samvisku sagt: Ég gerði mitt besta!““

Í þætti Arnars Gauta em má sjá hér að neðan má sjá allt um nýja staðinn í Kringlunni sem stendur til að opna með vorinu. Það er ljóst að það verður spennandi að heimsækja staðinn þegar hann opnar.