„Óskandi að KSÍ hefði valið sér samstarfsaðila sem virðir alþjóðalög“

26. maí 2020
18:07
Fréttir & pistlar

„Það hefði verið óskandi að KSÍ hefði valið sér samstarfsaðila sem virðir alþjóðalög, ber virðingu fyrir mannslífi, stuðlar að mannréttindum og býr yfir siðferði og sómakennd.“

Þetta segir aðgerðasinninn Sema Erla Serdar um ákvörðun Knattspyrnusambands Íslands að semja við þýska íþróttaframleiðandann Puma.

Sakar Puma um tvískinnung

„Það sem er merkilegt við Puma, sem segist meðal annars stuðla að „alþjóðlegu jafnrétti“ og „samfélagslegum umbótum“ er að fyrirtækið er eini alþjóðlegi styrktaraðili ísraelska knattspyrnusambandsins. Það þýðir, samkvæmt Human Rights Watch, að Puma styrkir starfsemi (amk. sex) knattspyrnuliða sem starfa í ólöglegum ísraelskum landnemabyggðum, á landi sem stolið var af palestínsku þjóðinni. Landnemabyggðir eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum og eru stríðsglæpur,“ segir Sema í færslu á Facebook-síðu sinni.

Þar að auki sé fyrirtækið á lista Sameinuðu þjóðana yfir fyrirtæki sem starfi á ólöglegum landránsbyggðum ísraela á landsvæði sem áður tilheyrði Palestínu.

Hagnist beint af mannréttindabrotum

„Þetta þýðir að Puma styrkir hvítþvott ísraelskra stjórnvalda í gegnum íþróttir og er með starfsemi á landi sem tilheyrir þeim ekki (og ekki ísrael heldur) og nýtir sér auðlindir sem eru ekki þeirra (eða ísraela) í hagnaðarskyni. Þetta þýðir að Puma hagnast beint af áratugalöngu hernámi ísraela, landráni þeirra og mannréttindabrotum þeirra á palestínsku þjóðinni.“

Með þessu styðji Puma við „stríðsglæpi, aðskilnaðarstefnu og þjóðernishreinsanir ísraelskra stjórnvalda á palestínsku þjóðinni.“

KSÍ hefur samdi nýlega við Puma til sex ára og munu íslensku landsliðin í knattspyrnu því keppa í búningum frá fyrirtækinu næstu árin.

Landsliðin hafa leikið í fatnaði frá ítalska framleiðandanum Errea frá árinu 2001.