Ósk brotnaði niður eftir mikla gagnrýni: „Það þarf að tala um þetta“

„Ég vona að ég hafi náð að koma öllu á framfæri eins og ég vildi og það verði ekki mikið meira drama úr þessu,“ segir Ósk Tryggvadóttir í myndbandi sem hún hefur birt á Instagram-síðu sinni.

Í myndbandinu svarar hún fyrir gagnrýni sem komið hefur fram á viðtal sem hún og vinur hennar, Ingólfur Valur Þrastarson, fóru í hlaðvarpsþættinum Eigin konur með Eddu Falak og Fjólu Sigurðardóttur. Eins og Hringbraut greindi frá á miðvikudag hafa þau atvinnu af því að búa til erótískt efni sem þau selja í gegnum vefsíðuna OnlyFans.

Um er að ræða klámfengið efni og nefndi Ósk til dæmis í viðtalinu að hún hafi fengið greiddar rúmar 60 þúsund krónur frá manni fyrir að pissa fyrir framan myndavél. Bæði eru þau með áskrifendur sem borga ákveðna upphæð fyrir aðgang að efninu þeirra.

Sitt sýndist hverjum um viðtalið en Katrín Edda Þorsteinsdóttir, sem kalla mætti áhrifavald, með tilliti til fjölda fylgjenda hennar á Instagram, gagnrýndi viðtalið harðlega. DV fjallaði um gagnrýni Katrínar Eddu og viðbrögð Óskar við gagnrýninni, en Katrín Edda sagði meðal annars að henni þætti sorglegt að konur þyrftu að fara í þennan iðnað.

„Persónuleg skoðun mín er að ég held að það sé ekki til neitt sem heitir hamingjusöm vændiskona. Mér finnst út í hött að taka þetta fólk í viðtal og reyna að gera þetta eins og þetta sé algjört draumastarf. Bara „græða 15 milljónir, rosa gaman og æði,“ sagði hún meðal annars á Instagram-síðu sinni. Bætti hún við að það væri óheilbrigt fyrir ungar stúlkur að hlusta á svona.

„Ég var sturluð og ýkt og skrýtin í hausnum þegar ég var yngri, hver veit nema ég hefði látið mana mig í þetta og fundist þetta góð hugmynd,“ sagði Katrín. Í frétt DV er bent á að margir hafi tekið undir þessa gagnrýni, meðal annars Manuela Ósk Harðardóttir og fjölmiðlakonan Eva Laufey Kjaran.

Ósk og Ingólfur svöruðu fyrir þessa gagnrýni á Instagram í gær, en í myndbandi Óskar má sjá þegar hún brotnar niður á einum tímapunkti. Hún segir meðal annars að tilgangur hennar sé ekki að birta einhverja glansmynd af því hún hefur atvinnu af. Þá segist hún hafa áttað sig á því að þessi gagnrýni myndi koma en markmið hennar hafi verið að veita innsýn í klámheiminn og opna umræðuna. „Klám er búið að vera til mjög, mjög lengi og það þarf að tala um þetta, hvað er klám og hvað er rétt og hvað er rangt.“

Þá sagði Ingólfur í sínu myndbandi að hann myndi aldrei hvetja neinn til að byrja á að gera það sama og þau eru að gera. „Ég hef aldrei hvatt neinn og ég er aldrei að fara að hvetja neinn til að byrja. Við gerum þetta af því við höfum gaman af þessu og af því að við viljum gera. Við kjósum að gera þetta, við viljum þetta. Ég vakna á hverjum einasta degi og ég veit að mig langar til að gera þetta, mér finnst þetta gaman, alveg sama hvort að fólk skilji það eða ekki.“