Örvænting grípur um sig í Valhöll

Örvænting virðist vera að grípa um sig innan Sjálfstæðisflokksins vegna komandi Alþingiskosninga. Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri situr flokkurinn fastur í um eða innan við 25 prósenta fylgi og sömu þingmannatölu og í síðustu kosningum. Þetta er að gerast á sama tíma og ætla skyldi að ríkisstjórnarflokkarnir stæðu firnasterkir í ljósi þess að Íslandi virðist hafa tekist betur upp andspænis Covid-19 en flestum öðrum löndum, bæði hvað varðar sóttvarnir og efnahagslegar aðgerðir.

Samt standa ríkisstjórnarflokkarnir veikir og kannanir benda til þess að stjórnin kunni að falla í kosningunum í haust. Þetta er athyglisvert vegna þess að umræðan síðasta eitt og hálfa árið hefur snúist um Covid og fátt annað. Mögulega er ein skýringin sú að fólk áttar sig á að enginn ágreiningur hefur verið milli stjórnar og stjórnarandstöðu um aðgerðir vegna Covid. Helsta andstaðan við aðgerðir sóttvarnalæknis hefur komið frá Miðflokknum og nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ekki er líklegt að staða stjórnarflokkanna vænkist þegar farið verður að tala um alvöru pólitík, eins og óhjákvæmilegt er í kosningabaráttu. Þar stendur ríkisstjórnin mun veikar en í Covid málum.

Örvæntingin hjá Sjálfstæðisflokknum stafar vitanlega af því að ef ríkisstjórnin fellur eru hverfandi líkur á því að flokkurinn komist í næstu ríkisstjórn. Samfylkingin, Píratar og Sósíalistaflokkurinn hafa lýst því yfir að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komi ekki til greina. Raunar er áframhaldandi ríkisstjórnarþátttaka Sjálfstæðisflokksins alls ekki tryggð þótt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli í kosningunum. Meira en tveir þriðju hlutar kjósenda Vinstri grænna eru andsnúnir áframhaldandi samstarfi við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk þannig að ríkisstjórnin gæti farið frá völdum þótt þingmeirihlutinn haldi.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er það óbærileg tilhugsun að vera ekki í ríkisstjórn. Það er þrykkt inn í erfðamengi Sjálfstæðisflokksins að vera í ríkisstjórn, jafnvel þótt stjórnin sé vinstri stjórn – eins og sést vel á því að flokknum virðist líða vel í ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur með Svandísi Svavarsdóttur í heilbrigðisráðuneytinu. Ástæðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn leggur höfuðáherslu á Fjármálaráðuneytið, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið og Utanríkisráðuneytið.

Fjármálaráðuneytið er valdamesta ráðuneytið og sterkur fjármálaráðherra er valdamesti stjórnmálamaður landsins. Það er ekki ónýtt að halda á ríkisbuddunni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti þarf flokkurinn til að viðhalda gjafakvótakerfi í sjávarútvegi sem hyglar helstu bakhjörlum flokksins á kostnað allrar þjóðarinnar. Í Landbúnaðarráðuneytinu stendur flokkurinn vörð um milliliðina sem standa milli framleiðenda og neytenda og viðheldur innflutningshöftum sem keyra upp matvælaverð á Íslandi – ekki bændum til hagsbóta heldur fyrir milliliðina og verksmiðjufyrirtækin sem framleiða hvíta kjötið. Reikninginn fá neytendur í formi hærri skatta, himinhás matvælaverðs og dapurlegs vöruúrvals samanborð við önnur lönd. Dómsmálaráðuneytið skiptir máli fyrir flokkinn vegna þess að hann vill geta treyst því að dómstólar standi sína pligt og verji grundvallarhagsmuni helstu bakhjarla flokksins. Utanríkisráðuneytið vill flokkurinn hafa meðal annars til að ráða ferðinni í alþjóðasamstarfi Íslands. Lengi vel stóð Sjálfstæðisflokkurinn í broddi fylkingar þeirra sem vildu rjúfa einangrun landsins og sækja fram til bættra lífskjara þjóðarinnar með þátttöku í frjálsu samstarfi lýðræðisþjóða. Ekki lengur. Nú skipar flokkurinn sér í fylkingu öfgaflokka og útskerja sem finna samstarfi lýðræðisríkja í Evrópu allt til foráttu.

Utan ríkisstjórnar missir Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar aðstöðuna til að verja þessa hagsmuni sem forystu flokksins og helstu bakhjörlum finnst mestu máli skipta. Þess vegna grípur örvæntingin um sig nú. Mikið er í húfi.

Því er það að nú hamast forystumenn flokksins og málgagn hans og Miðflokksins eins og enginn sé morgundagurinn. Eigendur Morgunblaðsins ætla greinilega ekki að láta sitt eftir liggja. Missi flokkurinn völdin er hætt við því að eigendur Morgunblaðsins missi gjafakvótann. Og til hvers er þá barist? Hamrað er á því að nú geti hvert atkvæði skipt máli. Neyðaráætlun er greinilega komin í gang og flestir sótraftar á sjó dregnir. Búast má við að á næstunni verði mikið hamrað á fullveldinu og mikilvægi viðskiptasamnings við Bretland, mikið gert úr því hve vel Bretlandi vegni eftir útgönguna úr ESB en látið hjá líða að minnast á að alþjóðleg stórfyrirtæki og fjármálafyrirtæki flýja nú Bretland nánast á handahlaupum – vegna þess að Bretland er ekki í ESB. Nú glittir í skrímsladeildina.

- - Ólafur Arnarson