Örtröð við Laugardalshöll: „Þetta eru bara vit­leys­ing­ar sem stýra þessu“ – Hannes Hólmsteinn svekktur

Örtröð myndaðist við Laugardalshöllina í morgun þar sem fleiri hundruð manns freistuðu þess að komast í seinni bólusetninguna með bóluefni AstraZeneca.

Hlynur Jónsson Arndal er einn þeirra sem fór í röðina og hann lýsti mikilli óánægju með skipulagninguna í viðtali við fréttavef Morgunblaðsins.

Hlynur fékk boð um að mæta í seinni bólusetninguna í morgun og fór í röðina. Þá fékk konan hans boð um að mæta klukkan 14:20 í dag en á sama tíma hafa fjölmargir reynt að komast í bólusetningu án þess að hafa fengið formlegt boð.

„Þeir aug­lýsa það svo að þetta eigi að klár­ast fyr­ir klukk­an tvö og þá megi hver sem er mæta í seinni spraut­una, en kon­an mín á boð klukk­an 14:20. Maður skil­ur nátt­úru­lega bara ekk­ert í þessu, þetta eru bara vit­leys­ing­ar sem stýra þessu. Það er ekk­ert skipu­lag og maður veit bara ekk­ert hvernig maður á að bera sig að til þess að kom­ast á þeim tíma sem maður var boðaður,“ segir Hlynur við fréttavef Mbl.is.

Í tilkynningu frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun kom fram að mun meiri ásókn væri í AstraZeneca í dag en búist var við. Voru þeir sem ekki hafa fengið SMS-boð í AstraZeneca í dag hvattir til að koma eftir klukkan 14:00.

„Við verðum að byrja á þeim sem eru komnir á tíma með seinni skammtinn. AstraZeneca verður næst boði eftir 2 vikur og þá er annað tækifæri. Virkni eykst með lengri  tíma milli skammta,“ sagði í tilkynningunni.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er einn þeirra sem mættu við Laugardalshöll í morgun. Hannes greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann hafi mætt í góðri trú en þurft frá að hverfa.

„Ég fékk fyrri skammtinn af AstraZeneca fyrir átta vikum. Ég þarf að fara til útlanda í næstu viku að halda tvo fyrirlestra. En auðvitað gilda ekki sömu undanþágur um okkur, sem erum að kynna íslenska menningu erlendis, og Eurovision-farana (þótt þeir gætu síðan ekki komið fram opinberlega, af því að þeir báru með sér smit!). Hefði verið haldið rétt á málum, þá hefðu allir Íslendingar nú getað verið bólusettir. Þess í stað lét Svandís sér nægja að taka númer á biðstofu Evrópusambandsins og settist og beið. Og beið.“