Örn Árna­son: „Ó­sköp er maður þreyttur á þessu“ – Skemmdar­verk upp á tugi þúsunda

Örn Árna­son, leikari og skemmti­kraftur, er búinn að fá sig full­saddan af skemmdar­verkum í sínu heima­hverfi. Örn er bú­settur í Breið­holti og skrifar hann færslu inn í Face­book-hóp íbúa þar sem hann birtir myndir af hús­veggjum sem búið er að spreyja á.

Það er ljóst að þetta vanda­mál er ekki bara bundið við Breið­holtið því í öllum hverfum borgarinnar – þótt víðar væri leitað – má sjá sams­konar skemmdar­verk.

„Ó­sköp er maður þreyttur á þessu graffi öllu. Það verður að gera þessum töggurum það ljóst að þetta eru skemmdar­verk,“ segir Örn og bætir við að þegar spreyjað er á steinaðar klæðningar sé ó­mögu­legt að laga þær nema hrein­lega kaupa nýja klæðningu.

„Og það kostar tugi ef ekki hundruð þúsunda. Málning kostar helling líka. Tökum nú höndum saman um að koma þessu í ein­hvern annan far­veg en að úða út eignir fólks,“ segir Örn sem birtir nokkrar myndir máli sínu til stuðnings.

Færsla Arnar hefur vakið tals­verða at­hygli og er ó­hætt að segja að allir taki undir. Einn bendir á að graff, eða vegglista­verk, eigi heima í undir­göngum og tekur Örn undir það. Það sé þó munur á „töggum“og „graffi“ sem Örn segir að geti verið töff hafi það ein­hverja merkingu.