Opnar sig um tímann hjá Vottunum: „Ó­­­trú­­legar hremmingar, sárs­auki og of­beldi“

„Ég hef í gegnum árin verið að vinna úr mínum á­­föllum eftir að hafa verið í söfnuðinum og er komin á þann stað að ég vil loka þessu máli. Í gær lét ég slag standa og hringdi einn öldung og bað hann um að at­huga hvort það væru til ein­hverjar skýrslur um mig til hjá þeim. Þetta var mikil frelsis­til­finning og nú bíð ég bara eftir svari,“ segir Hulda Fríða Bernd­sen sem til­­heyrði söfnuði Votta Jehóva um ára­bil í sam­tali viðFrétta­blaðið.

Skýrslurnar sem Hulda nefnir eru gögn sem hún segist vita að Vottar Jehóva eigi til, með ýmsum per­­sónu­­legum upp­­­lýsingum um bæði hana og fjöl­­skyldu hennar.

„Þeir komu til mín á sínum tíma með þessa pappíra sem voru meðal annars af barna­landi og að dóttir mín væri lesbía, sem er náttúru­­lega bara brot á minni frið­helgi, barna­barnanna minna og dóttur minnar. Þetta voru fjórar A4 síður um mín per­­sónu­­legu mál, en ég sagði mig úr söfnuðinum á sínum tíma, gerði upp­­reisn og var alls ekkert auð­veld,“ segir Hulda.

Hræddist Arma­gedd­on

Hulda sleit sig alveg frá Vottum Jehóva fyrir tæp­­lega sex­­tán árum, en hún hafði þá verið með­limur safnaðarins í rúm­­lega 30 ár, með hléum þó.

„Ég byrjaði 1974 en var rekin fimm árum síðar. Svo fór ég aftur 86 í ein­hverju brjál­æði þarna inn því ég var orðin svo hrædd að ég hélt að það væri að koma Arma­gedd­on. Missti svo fókusinn í lífinu“, segir Hulda

Hulda segir að tíminn í Vottum Jehóva hafi verið litaður af miklu trúarof­beldi, vald­­níðslu og á köflum heila­þvotti, sem hafi markað sig bæði sem mann­eskju og sem móður.

„Þetta er búið að trufla líf manns og maður er búinn að ganga í gegnum ó­­­trú­­legar hremmingar, sárs­auka og of­beldi sem hefur bitnað á börnunum mínum og jafn­vel barna­börnunum líka. Þú ferð náttúru­­lega yfir­­­leitt með beyglað mynstur inn í fjöl­­skylduna þína og það breiðir úr sér til barna og barna­barna líka,“ segir Hulda.

Að sögn Huldu byrjaði hún að átta sig á hlutunum upp úr alda­­mótum og fór þá að spyrna á móti öllu því sem við­­gekkst innan safnaðarins.

“Ég fer að vinna mikið í sjálfri mér í kringum 1996, en ég þorði aldrei að taka á þessu máli því það mátti aldrei segja neitt. Það mátti enginn vita neitt og maður mátti ekki hafa skoðanir. Þegar ég fer að átta mig á þessu fer ég að haga mér öðru­­vísi,” segir Hulda, sem kveðst þó hafa haldið sig innan safnaðarins í lengri tíma vegna syst­kina sinna.

„Þau báðu mig um að segja mig ekki úr söfnuðinum svo þau gætu haft sam­band við mig,“ segir hún.

Hægt er að lesa viðtal Fréttablaðsins í heidl sinni hér.