Opnar sig um meðferðina: „Ég hef loksins öðlast mannsæmandi líf“

Hörður Hákon Jónsson hætti að brjóta af sér daginn sem hann hóf skaðaminnkandi meðferð við morfínfíkn sinni. Hann segir fordóma mikla í samfélaginu og veikt fólk gert að glæpamönnum. Hörður opnar sig í viðtali við Fréttablaðið í von um skilning og fleiri úrræði.

Af hverju vildirðu stíga fram og segja þína sögu?

„Það kom læknir nýlega fram, Árni Tómas, en hann hefur verið að skrifa í blöðin um þá skaðaminnkandi meðferð sem ég hef verið að fá. Ég hélt að ef ég stigi fram líka þá myndi það hjálpa málstaðnum,“ segir Hákon einlægur. „Ég vildi segja fólki hvað þetta hefur gert fyrir mig, á jákvæðu nótunum. Þetta er mér hjartans mál. Áður en ég byrjaði í þessari meðferð var ég háður morfíni upp á dag, í tíu ár, var að harka á götunni og þurfti að redda mér á hverjum degi, oft með afbrotum og neyðin varð alltaf alvarlegri.“

„Ég er sammála því sem Árni Tómas hefur verið að gera með þessari skaðaminnkandi meðferð. Hann hefur bjargað mannslífum með þessu og á sama tíma náð að breyta lífi fólks og gefa þeim mannsæmandi líf.“

Hákon segist fullviss um það að hægt sé að nýta þessa skaðaminnkandi meðferð fyrir fleiri lyf og að ef það yrði gert þá myndi svarti markaðurinn, með lyfseðilsskyld lyf, hrynja.

„Það er miklu betra fyrir fólk að fá þessi lyf hjá lækni. Þetta á ekki að vera í höndunum á einhverju fólki út í bæ sem er að reyna að græða peninga á veikindum annarra. Það hefur verið þannig í allt of mörg ár. Margir sem selja þessi efni eru ekki fíklar og það er á þeim svakaleg ábyrgð, sem þau fara bara ekkert alltaf vel með.“

„Það þarf að taka þessi lyf og efni frá söluaðilunum og setja þau í hendurnar á fagaðilum sem kunna að meðhönlda þessi lyf sem við erum háð, fólk sem er með menntun til þess. Þá þurfum við ekki að beygja og hneigja fyrir söluaðilum á svarta markaðinu og þetta er líka öryggismál fyrir okkur. Svarti markaðurinn blómstrar á meðan læknar taka ekki ábyrgð og skrifa út þessi lyf fyrir veikasta hópinn, að sjálfsögðu innan viðmiða og reglna.

Viðtalið er hægt að lesa hér í heild sinni á vef Fréttablaðsins.

Fleiri fréttir