Opnar sig um á­lagið sem fylgir for­vali: „Ég nenni ekki að þykjast láta sem þetta hafi engin á­hrif“

Kol­beinn Óttars­son Proppé, þing­maður VG, segir að for­valsvinnan undan­farnar vikur hafi tekið á and­lega og hann nenni ekki lengur að láta sem þetta hafi engin á­hrif.

Hann segir frá því í færslu á Face­book að það ráðist um helgina, í for­vali VG í Suður­kjör­dæmi, hvort hann hafi mögu­leika á að sinna vinnunni sinni á­fram eða ekki.

„Og þó það gangi vel um helgina getur ná­kvæm­lega sama staða komið upp í haust, ef ekki tekst að ná inn á þing,“ segir hann og vísar til kosninganna og gengis þar.

Hann segir frá því að þegar hann starfaði sem blaða­maður ræddi hann oft við þing­menn í próf­kjöri en hafi aldrei al­menni­lega skilið hvernig þeim leið.

„Auð­vitað er fólk líka ó­líkt og það hvernig mér líður segir ekki til um hvernig öðrum gerir það. Helst minnir þetta mig á mörg mánaða­mótin á Frétta­blaðinu eftir hrun, þegar maður mátti alltaf eiga von á því að ein­hverjum yrði sagt upp. Verð það ég núna?,“ spyr Kol­beinn í færslu sinni.

Aðeins einn frídagur síðustu mánuði

Hann segir að síðustu vikurnar hafi verið hektískar og í raun mánuðir ef út í það er farið því eftir að hann á­kvað að sækjast eftir sæti í Suður­kjör­dæmi hefur hann ferðast mikið um til að hitta fólk í kjör­dæminu og að sam­hliða þing­störfum þá séu frí­dagarnir fáir og að hann hafi í raun að­eins fengið einn frí­dag síðustu vikur, á páska­dag.

„Þetta tekur furðu­lega á and­lega. Ég nenni ekki að þykjast láta sem þetta hafi engin á­hrif, það væri ein­fald­lega rangt. Það er þessi skrýtna til­finning um að á endanum sé þetta ekki í manns eigin höndum. Þegar maður er þreyttur vekur hún upp þær hugsanir að ekkert sem maður geri sé nóg, sem er ekki góð til­finning. Dá­lítið eins og þegar maður reynir að flýja í draumi en kemst ekki úr sporunum. Ég er engu að síður býsna æðru­laus yfir þessu öllu, þetta fer eins og það fer. Annað hvort verð ég þing­maður eða bara eitt­hvað allt annað,“ segir Kol­beinn ein­lægur.

Hann segir að þótt þetta sé erfitt sé þetta allt miklu stærra mál og að hann skipti, í stóra sam­henginu, litlu máli. Þing­mennskan sé bundin við þing­menn sem eru samt hluti af hreyfingu og starfi í hennar þágu.

„Ég get bara lagt mig fram, sýnt hvað ég get gert og hef gert og svo verður fólk að vega það og meta hvort það vill hafa mig á­fram á þingi eða ekki,“ segir Kol­beinn sem lýkur færsluna á því að hann, þrátt fyrir allt, fari brosandi inn í daginn.

Fjöl­margir hrósa Kol­beini fyrir ein­lægnina og að ræða þetta opin­ber­lega og þar á meðal eru Alexandra Briem, borgar­full­trúi Pírata, sem segir að hún telji að fólk sem hafi aldrei prófað þetta skilji ekki hversu erfitt þetta er og skrítið.

„Jafn­vel þegar vel gengur þarf maður að horfa upp á vini og fé­laga verða fyrir von­brigðum og fá ekki það sem, í full­komnum heimi, þau ættu skilið líka. En gangi þér vel,“ segir hún.

Færsluna er hægt að skoða hér að neðan.

Þessi vinna mín er skrýtin, ólík öllum öðrum. Nú um helgina ræðst það hvort ég hafi möguleika á að sinna henni áfram eða...

Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Thursday, 8 April 2021

Fleiri fréttir