Önnu brugðið þegar hún steig á vigtina í morgun

Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife, hefur haldið fylgjendum sínum á Facebook vel upplýstum um hvernig henni gengur í lífstílsbreytingunni sem staðið hefur yfir síðan í janúar.

Í byrjun hvers mánaðar birtir hún skýrslu um stöðu mála og birti hún eina slíka í morgun. Önnur hefur væntanlega brugðið nokkuð þegar hún steig á vigtina.

Sjá einnig: Þrautseigja Önnu skilaði ótrúlegum árangri í marsmánuði

„Ég var víst búin að lofa nýjustu þyngdartölum að morgni 1. maí. Talan reyndist vera 81,5 kg. Ætlunin var að komast niður fyrir 84 kg í dag og niður fyrir 82,5 kg 1. júní og niður fyrir 82 kg mánuði síðar. Ég er með öðrum orðum búin að ná markmiði júnímánaðar. Samkvæmt því er kominn júlí hjá mér,“ segir Anna.

Anna náði í aprílmánuði öðru markmiði sem var að ganga yfir 300 kílómetra í mánuðinum. Hún náði því og gott betur, gekk 309,7 kílómetra og hefur gengið 1.037 kílómetra frá áramótum.

„Farið var tíu sinnum á toppinn á Stóru-Klif, eða þriðja hvern dag að jafnaði, en ég er löngu hætt að telja öll skiptin á Litlu-Klif eða Litlafell,“ segir hún. Í ljósi góðs gengist hefur Anna sett sér nýtt markmið og er ætlunin að komast niður fyrir 80 kíló í júní.

Hún segist að lokum ætla að halda upp á góðan árangur með því að fá sér lambakjöt á Klausturbar.