Ómótstæðilegt grillað risarækjusalat með lime hunangs dressingu

Með hækkandi sól draga landsmenn að fullum krafti fram grillin og leika listir sínar með hin ýmsu hráefni á grillinu. Hrefna Rósa er ein af þeim sem er komin á fullt á grillinu. Hrefnu Rósu þarf vart að kynna en hún er einn af okkar ástsælustu matreiðslumeisturum, sjónvarpskokkur og rithöfundur matreiðslubóka auk þess sem hún á og rekur tvo af vinsælustu veitingastöðum borgarinnar, Fiskmarkaðinn og Grillmarkaðinn á samt öðrum. Í tilefni þess að sólin hefur hækkað á lofti fengum við Hrefnu til að gefa lesendum nokkrar uppskriftir af brakandi nýjum grillréttum sem hún hefur verið að grilla þessa dagana. „Það er svo gaman að grilla allskonar og reyna að vera sem mest úti en ekki í eldhúsinu þegar sólin skín,“segir Hrefna og ljóstrar hér nokkrum einföldum sælkera uppskriftum sem ættu að höfða til flestrar.

M&H Grillað risarækjusalat Hrefna Sætran

Grillað risarækjusalat með lime hunangs dressingu

800 g risarækjur

1 msk. reykt paprika

1 tsk. cummin

4 stk. hvítlauksrif

4 msk. ólífuolía

Salt og pipar eftir smekk

Þerrið rækjurnar mjög vel áður en þið marinerið þær. Það er algjör lykill þegar grilla á rækjur og annan fisk að hráefnið sé ekki blautt þegar það fer á grillið. Blandið öllu saman í skál og marinerið rækjurnar í að minnsta kosti 30 mínútur og mesta lagi 2 klukkustundir í ísskáp. Grillið þær svo á rjúkandi heitu grilli í 2-3 mínútur á hvorri hlið.

M&H Grill Hrefnu Sætran 2021

Salatið

2 hausar romanin salat

1 stk. mangó

1 askja litlir tómatar

¼ ananas

Ég grillaði mangóið, tómatana og ananasinn létt á grilli. Penslað í smá með olíu og kryddað í svo eftir á með salti og pipar. Salatið er bara skorið og skolað.

M&H Ávextir og græmeti á grillið

Lime hunangs dressing

2 msk. lime safi

Fínt rifinn börkurinn af einu lime

1 msk. eplaedik

2 msk. hunang

2 stk rif rifinn hvítlaukur

6 msk. ólífuolía

Blandið öllu saman í skál og berið fram og njótið.

M&H Risarækjusalat Hrefna Sætran

M&H Risarækjurnar

Muna að afþíða rækjurnar, marenera og þerra fyrir grillsteikingu.