Ómótstæðilega ljúffengt Partýbrauð með bræddum hvítmygluosti sem bráðnar í munni

8. september 2020
11:34
Fréttir & pistlar

Eins og máltækið segir: „Maður er manns gaman“, þá má með sanni segja að máltækið: „Matur er manns gaman“, eigi jafn vel við. Matur er manns megin og með getum töfrað gesti okkar upp úr skónum með ljúffengum sælkeraréttum. Sjöfn Þórðar heimsótti Sigríði Björk Bragadóttur, sem ávallt er kölluð Sirrý, matgæðing og framkvæmdastýru hjá sælkeraeldhúsinu Salt Eldhús í þættinum Fasteignir og heimili á dögunum og fékk að bragða þetta ómótstæðilega ljúffenga partýbrauð sem bráðnaði í munni. Það var ekki spurning um annað en að fá uppskriftina og deila með ykkur lesendur góðir.

„Bráðinn ostur er alltaf girnilegur, sérstaklega góður hvítmygluostur. Hér erum við með brauð sem er í ætt við Franska “Brioce” brauðið en það er frekar sætt og ríkt af mjólk, eggjum og smjöri. Þið getið notað þá brauðuppskrift sem þið hafið náð tökum á sem er með svipað magn af hveiti. Í þessari uppskrift er meira af pressugeri en ég nota venjulega en það er vegna þess að það þarf talsvert til að lyfta deigi með eggjum og smjöri. Uppskriftin er með stórum Brie-ost sem er hægt að panta hjá MS eða fá í Costco. Ef þið viljið gera minni uppskrift með meðalstórum hvítmygluost er upplagt að skipta deiginu í tvennt og annað hvort frysta helminginn eða baka lítið formbrauð. Minni brauð þurfa þó styttri bökunartíma, um það bil 25 mínútur,“segir Sirrý og lofar að þetta eigi eftir að slá í gegn í matarklúbbunum í vetur.

Partýbrauð með bræddum hvítmygluosti

Fyrir 8-10

500 g brauðhveiti

40 g sykur

50 g smjör, skorið í litla bita

3 meðalstór egg (60 g með skurn)

2 dl mjólk

1 msk. sjávarsalt

50 g ferskt ger eða 2 tsk. þurrger

1 stór Brie-ostur

1 msk. ólífuolía

örlítið timian og rósmarin, ferskt eða þurrkað

nýmalaður pipar

1 egg sundurslegið

Setjið hveiti og sykur í hrærivélaskál ásamt smjörinu og látið vélina ganga með hræraranum (K-inu) þangað til smjörið hefur blandast við hveitið í litla mola. Þetta má líka gera með því að mylja saman í höndum en er fljótlegra svona.

Setjið eggin í skál. Velgjð mjólkina með saltinu í litlum potti. Hellið mjólkinni yfir eggin og pískið vel saman. Blandan á að vera fingurvolg (37%) og ef hún er of heit er ráð að bíða aðeins svo við drepum ekki krúttlegu gerlana í gerinu. Leysið gerið upp í mjólkurblöndunni og hellið henni síðan út í hveitið. Hnoðið saman með hnoðaranum í a.m.k. 10 mín. Dustið örlitlu af hveiti á deigkúluna og losið um deigið í skálinni með brauðsköfu eða sleikju svo hveitið nái að þekja deigið, á þennan hátt á deigið auðveldara með að hefast vel. Látið deigið hefast, með klút yfir, á hlýjum stað í 1 klukkustund.

Losið deigið úr skálinni og hnoðið létt saman á borðinu. Finnið 30 cm breitt form sem þolir ofnhita. Mótið köku úr deiginu sem passar í formið, gott að fletja bara með fingurgómum, setjið kökuna á örk af bökunarpappír og leggið deigið í formið. Setjið ostinn ofan á og skerið rákir í hann þvers og kruss. Látið nú hefast aftur í 30 -40 mín Hitið ofninn tímanlega á 190°C (180°C blástur). Dreypið ólífuolíu ofan á ostinn. Stráið kryddum og pipar yfir. Penslið brauðið með eggjahræru eða mjólk. Bakið í ofninum í 40 mínútur. Berið fram heitt með góðu salati með vínagrettu.

Njótið vel.

F&H Brauðið hennar Sirrýjar.jpg

F&H - innslag með Sirrý 6.sept 2020.jpg