Ómar segir það sláandi reynslu að liggja á bráðadeild Landspítala

Leikarinn, söngvarinn, flugmaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn Ómar Ragnarsson skrifaði afar áhugaverða reynslusögu á bloggsíðu sinni frá dvöl sinni á bráðadeild Landspítala fyrir fáeinum árum síðan. Ómar segir ástandið þar sláandi og blæs á frásagnir sem segja til um annað.

Hann greinir frá því að hann hafi lagst þrisvar inn á spítala á þremur árum: „Vandinn á bráðadeild Landspitalans hefur verið til umræðu meira og minna í sjö ár hið minnsta. Fyrir fimm árum höguðu atvikin þannig til að síðuhafi lenti í þremur beinbrotsslysum á þremur árum, sem þörfnuðust innlagnar á bráðadeild með endurkomum,“ segir Ómar.

Á svipuðum tíma hafi málsmetandi einstaklingur sagt að bráðadeildin væri í góðu standi. Ómar vill ekki kannast við það: „Um það leyti sem fyrsta slysið var fullyrti "kunnáttumaður" í Kastljósi að ekkert væri að á bráðadeild og þetta væri aðeins væl, leikaraskapur og tilbúningur hjá starfsfólkinu.“

Hann heldur áfram: „Heimsóknir mínar á þessum árum sögðu allt aðra og raunverulegri sögu, sem ekki hefði birst svona skýr nema fyrir þá nánd við ófremdarástandið sem sannanlega er enginn leikaraskapur, heldur er ástandið í heild auðsjánlega með þá undirrót að spítalinn hefur verið sveltur lungann af þessari öld, og slíkt svelti safnast upp og verður ekki fjarlægt með því að smella fingri,“ segir skemmtikrafturinn geðþekki Ómar Ragnarsson.