Ómar Ragnars­son átt­ræður í dag: „Þessi maður er þjóðar­ger­semi“

16. september 2020
12:13
Fréttir & pistlar

Ómar Ragnars­son, sem vart þarf að kynna fyrir les­endum, er átt­ræður í dag. Ómar er fæddur þann 16. septem­ber árið 1940. Í til­efni stór­af­mælisins hefur kveðjunum rignt yfir þennan ein­staka mann sem segja má að sé sann­kölluð þjóðar­ger­semi.

Tón­listar­maðurinn Jón Ólafs­son sendir Ómari fal­lega kveðju á Face­book í til­efni dagsins:

„Þúsund­þjala­smiðurinn Ómar Þ. Ragnars­son er 80 ára í dag. Hann er ó­trú­legur hæfi­leika­maður sem hefur barist fyrir verndun ís­lenskrar náttúru; gert heimilda­myndir sem eiga sér fáar hlið­stæður, samið texta sem þjóðin er löngu búin að festa í minni, gert lög af ýmsum gerðum (án þess að spila á hljóð­færi), fært okkur fréttir af mönnum og mál­efnum, skemmt kyn­slóðum um ára­tuga skeið með gaman­efni og sprelli ýmis­konar og svona mætti lengi telja. Ómar er merki­legur maður sem á skilið veg­tyllur, orður, at­hygli, hrós, klapp á bakið, koss á kinn, vina­legar kveðjur og þakkir fyrir sitt ó­metan­lega fram­lag. Til hamingju með daginn kæri. Ég bugta mig og beygi.“

Undir þetta taka margir þjóð­þekktir ein­staklingar. „Ég elska orkuna sem Ómar er - stöðugt á hreyfingu með fal­legt hjarta­lag,“ segir Ellý Ár­manns á meðan Skarp­héðinn Guð­munds­son, dag­skrár­stjóri RÚV, segir: „Það er og verður að­eins einn Ómar. Þjóðar­ger­semi.“

Gunnar Þor­steins­son, oft kenndur við Krossinn, segir: „Þessi maður er þjóðar­ger­semi og hann á af­mæli í dag. Guð blessi Ómar Ragnars­son.“

Kristín Helga Gunnars­dóttir rit­höfundur segir að Ómar sé sann­kölluð fyrir­mynd og náttúru­kraftur.

„Fjöl­lista­maður og bar­áttu­maður fyrir betri jörð - alltaf já­kvæður og góð­viljaður. Hann er glöggur maður með stóra sýn sem stöðugt spyr spurninga, rann­sakar og upp­götvar. Það er mikill heiður að ganga með honum götuna. Og að vinna með honum í gamla daga á Stöð tvö var alltaf lær­dómur og gleði. Við deilum dá­læti á alls­konar sniðugum jeppum og þá sér­stak­lega súkkum. Til hamingju með daginn þinn, kæri Ómar, og til hamingju með Dag náttúrunnar, allir! Gerum betur.“