Ómar lenti í því sama og Bríet: Sögurnar gengu fjöllunum hærra

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og tónlistarmaður, segir að það hafi verið lenska hjá mörgum hér á landi að líta annars vegar niður á ungt fólk og hins vegar á elsta fólkið.

Þetta segir Ómar á bloggsíðu sinni. Tilefnið er ræða sem tónlistarkonan Bríet flutti á Íslensku tónlistarverðlaununum á laugardagskvöld, en þar fékk hún verðlaun sem textahöfundur ársins.

Í ræðu sinni kom hún inn á það að margir hefðu spurt hana í gegnum tíðina hver það væri sem semdi eiginlega alla textana við lög hennar. Hún sendi öllu því fólki fingurinn eins og greint var frá um helgina.

Ómar segir að Bríet sé ekki fyrsti textahöfundurinn sem verður fyrir því að fólk dragi í efa getu hennar til að semja eigin texta.

„Síðuhafi var aðeins átján ára þegar hann hóf feril sinn mjög bratt 1958 og varð strax á fyrsta ári fyrir því að það var látið ganga fjöllunum hærra að móðir hans semdi textana fyrir hann,“ segir Ómar.

Hann bætir við að móðir hans hafi verið hæfileikakona á marga lund, en aldrei gert svo mikið sem semja eina vísu um ævina. „Né heldur hitt foreldrið en þá var bara fleiri nánu fólki bætt inn hóp grunaðra höfunda.“

Ómar nefnir svo að nýlega hafi verið reynt að gera sem minnst úr Kára Stefánssyni fyrir þær sakir að hann væri orðinn 71 árs.

„Er hann þó sjö árum yngri en Joe Biden Bandaríkjaforseti og Nancy Pelosi forseti fulltrúardeilar Bandaríkjaþings og heilum 16 árum yngri en Konrad Adenauer var þegar hann stóð á hátindi pólitískra afreka í lok kanslaratíðar sinnar.“

Ómar sagðist geta nefnt fleiri dæmi um það sem Bríet mótmælti svo hressilega á laugardagskvöld. Óskaði hann henni innilega til hamingju með verðlaunin.