Ómar hlær að jeppaeigendum nútímans: „Þú ert að grínast. Þetta er fullkominn jeppi“

Ómar Ragnarsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður og þúsundþjalasmiður, er með virkustu bloggurum landsins. Ómar lætur gamminn geisa á Moggablogginu þar sem hann skrifar um allt milli himins og jarðar, oftar en ekki um málefni líðandi stundar sem birtast okkur í fréttum.

Ómar skrifaði skemmtilegan útúrdúr vegna fréttar Morgunblaðsins um þjóðvegi á hálendinu á málþingi sem Vegagerðin stóð fyrir í gær. Yfirskrift pistils Ómars er Allt er orðið „jeppar“ en eins og nafnið gefur til kynna þykir Ómari skilgreiningin á jeppum dagsins í dag vera orðin heldur frjálsleg.

„Þegar fjórhjóladrifsbílar á borð við Subaru Leone 4x4 og fyrstu gerðirnar af Toyota RAV 4 ruddu sér til rúms hér á landi datt engum í hug að kalla þá jeppa. Á þessum tíma hikuðu menn hins vegar við að þýða erlenda hugtakið SUV, Sport Utility Vehicle, og fóru að fikta við heiti eins og jepplinga,“ segir Ómar í pistlinum og bætir við að þegar hin erlenda SUV-bylgja skall síðan yfir hér á landi um síðustu aldamót hafi fjandinn orðið laus.

„Hægt og bítandi en ómeðvitað markvisst var skilgreining færð neðar og neðar, og nú er svo komið að munurinn á sumum "jeppum" og venjulegum framhjóladrifnum fólksbílum er orðinn ENGINN, hvorki á veghæð, drifum, þakhæð né skögun að framan og aftan og undir kvið.“

Ómar segir að táknrænt dæmi um þetta sé samtal sem hann átti eitt sinn við stoltan nýjan jeppaeiganda. Gefum Ómari orðið en hann endurritar samtalið í grófum dráttum. Orð viðmælanda Ómars eru skáletruð í textanum:

Ég er svo ánægður með þennan jeppa af því að hann er með stærri farangursgeymslu en aðrir jeppar. Svo er hann líka ódýrari.

En veistu af hverju þetta tvennt er svona? Það er vegna þess að hann er ekki með neitt afturdrif og þar með fæst meira rými fyrir stærra skott og lægra verð með því að sleppa afturdrifinu.

Þú ert að grínast. Þetta er fullkominn jeppi.

Skoðaðu undir hann að aftan. Hefurðu gert það?

Nei.

Kíktu þá núna.

Nei, hver andskotinn, það er ekkert drif að aftan. En það skiptir ekki máli og ég get þá bara skoðað hvort ég geti skipt honum út fyrir annan alveg eins, sem er með afturdrif.

Það er ekki hægt. Hann er ekki framleiddur með fjórhjóladrif.

Af hverju ekki?

Af því hann er bara framleiddur með framhjóladrifinu einu.

Jæja, það breytir engu fyrir mig. Það halda allir að ég sé á jeppa.