Ómar efast um að við verðum jafn heppin næst

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og þúsundþjalasmiður, segir að vissara sé að treysta ekki á heppnina aftur þegar næsta eldgos á Reykjanesskaga gerir vart við sig.

Þetta segir Ómar í færslu á bloggsíðu sinni.

Tilefni færslunnar eru fréttir um endalok eldgossins í Geldingadölum, en flest bendir til þess að gosinu þar sé að ljúka eftir rúmlega hálfs árs eldsumbrot. Enn er einhver virkni á svæðinu en hún er lítil og kemur ósennilega til með að aukast aftur.

Jarðvísindamenn hafa sagt að atburðirnir í Geldingadölum geti markað upphafið að nýju tímabili eldsumbrota á Reykjanesskaga. Ómar segir vissara að treysta ekki á stálheppni á ný í næsta gosi.

„Þótt líklegt virðist að það stefni í dánarvottorð eldgossins í Geldingadölum er ekki víst að sama máli gegni um byrjun á nokkurra alda löngu tímabili með eldvirkni og gosum á Reykjanesskaga. Og enn síður er líklegt að við getum á ný orðið jafn stálheppin með gossvæðið og raunin varð í þessa sinn,“ segir Ómar í færslu sinni.

Hann heldur áfram:

„Þvert á móti er erfitt að finna annað svæði, þar sem jafn lítil röskun verði hvað varðar mannvirki og fólk og í þessu einstaklega hagkvæma túristagosi.“