Ölvaður faðir virti ekki til­mæli um ein­angrun: Fluttur í fanga­geymslu og Barna­vernd kölluð til

Lög­regla var send að heimili fjögurra barna fjöl­skyldu í gær þar sem faðirinn átti erfitt með að fylgja reglum um ein­angrun í heima­húsi en að því er kemur fram í frétt RÚV um málið hafði maðurinn greinst með CO­VID-19 við sýna­töku í gær.

Sam­kvæmt til­kynningu frá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu voru aðrir í­búar heimilisins orðnir úr­ræða­lausir og því hafi lög­regla verið kölluð til. Maðurinn var vistaður í fanga­geymslu vegna málsins en Skúli Jóns­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn sagði í sam­tali við RÚV að lög­regla hafi þurft að klæðast hlífðar­fatnaði við hand­tökuna.

Full­trúar frá Barna­vernd fóru í kjöl­farið á heimilið en maðurinn var fluttur með sjúkra­bíl aftur á heimilið í dag eftir að hafa gist í fanga­klefa í nótt. Reglur um ein­angrun í heima­húsi voru brýndar fyrir manninum og var klefinn sótt­hreinsaður eftir að maðurinn var fluttur.

Mál af þessu tagi eru fá­tíð að sögn Skúla en ein­staka mál sem snúa að erfið­leikum við að virða reglur um ein­angrun hafa komið upp. „Það getur reynst fólki mjög erfitt að vera í ein­angrun í heima­húsi, þetta getur verið harm­leikur fyrir fólk“ sagði Skúli í sam­tali við RÚV.