Ólöf Tara segir skrif Írisar ógeðsleg – Samfélagsmiðlar loga

Óhætt er að segja að pistill sem Íris Dröfn Kristjánsdóttir skrifaði og birti um helgina hafi vakið athygli, en í honum skrifar hún um annan hluta MeToo-bylgjunnar sem riðið hefur yfir að undanförnu.

Það er skemmst frá því að segja að Íris er afar óhress með þá umræðu sem fram fer á samfélagsmiðlum þar sem skorið er úr um sekt eða sakleysi einstaklinga og þeir allt að því útilokaðir vegna einhliða frásagna.

Íris nefnir engin nöfn í pistlinum en augljóst er að hún vísar meðal annars í mál Eiðs Smára Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem myndaður var á almannafæri í miðbænum þar sem hann var að kasta af sér þvagi. Hins vegar vísar hún í mál tónlistarmannsins Auðuns Lútherssonar sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu.

Tilraunir til mannorðsmorða í hverri viku

Í pistli sínum segir Íris meðal annars:

„Ég get ekki legið á skoðunum mínum yfir því sem er að gerast í samfélaginu okkar. Það eru flestir með myndavélar á sér ásamt beinu aðgengi að umheiminum (samfélagsmiðlar). Þetta tvennt saman vegur hættulega að friðhelgi einkalífsins. Í hverri viku má sjá tilraunir til mannorðsmorða og á litlu landi eins og hér geta þessar tilraunir verið ansi árangursríkar. Í þessari nýju #metoo herferð hef ég rekið augun í frásagnir (oftast kvenna) af málum sem eru svo ómerkileg að þær hefðu vel getað afgreitt þau á staðnum þ.e. þegar atvikið átti sér stað með því að setja mörk. Auðvitað á að segja frá. Við erum t.a.m. með Kvennaathvarfið og Bjarkarhlíð sem taka á móti konum sem verða fyrir ofbeldi. Ég hef enga trú á að hægt sé að fá sálarfrið vegna ofbeldis með því að henda einhliða frásögn á samfélagsmiðla og jafnvel nafngreina svokallaðan geranda. Erum við mögulega að gengisfella alvarlegri ofbeldismál með því að setja misskilning, ósætti og ólík mörk undir sama hatt og ofbeldi?“

Íris heldur áfram og segir:

„Sjálfskipaður “áhrifavaldur” (skaðvaldur) jarmar eitthvað út í loftið og fjögur hundruð og eitthvað (jafnvel þúsundir) hlaupa jarmandi á eftir með mis gáfulegar reynslusögur. Er eitthvað réttlæti í að eyðileggja mannorð fólks með einhliða frásögnum ? Eiga þessi mál ekki heima annars staðar en á samfélags- og fréttamiðlum?

Ólöf segir skrifin ógeðsleg

Hvað er það annað en gróft ofbeldi þegar einstaklingur safnar liði og ræðst á einn hvort heldur er með gjörðum eða orðum?“

Þegar þetta er skrifað hafa hátt í 60 deilt færslunni og hátt í 130 athugasemdir verið skrifaðar. Margir taka undir með Írisi á meðan aðrir eru henni ósammála.

Í hópi þeirra sem gagnrýna skrifin er til dæmis einkaþjálfarinn Ólöf Tara sem segja má að hafi komið Sölvamálinu svokallaða af stað á sínum tíma. Ólöf segir að skrif Írisar séu „ógeðsleg“ og áhrifavaldar, eða „skaðvaldar“ eins og Íris kallar þá, séu í það minnsta að leggja sitt af mörkum til að skapa öruggt rými fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

„Það eina sem þú gerir að að halda uppi rætinni aðför að brotaþolum. Brotaþolar hafa þurft að þola samfleytt núna í margar vikur að rekast á svona triggerandi skrif á Internetinu frà fólki sem hefur ekki meiri tilfinningagreind en a4 blað.“

Íris svarar athugasemd Ólafar fullum hálsi og segir hana ekki hafa lesið það sem hún skrifaði.

„Við erum með dómskerfi hér og lagaramma, (það má svo sem deila um hvort það sé nægilega skilvirkt kerfi) en ef almenningur ætlar að hrifsa til sín dómsvaldið þá erum við á rangri leið sem samfélag. Ég er sjálf fórnarlamb alvarlegs ofbeldis og mér dettur ekki í hug að gera lítið úr þolendum þess enda snúast þessi skrif ekki um það heldur að opna augun fyrir því sem er að gerast í samfélaginu. Að með einni mynd og einum pósti er auðveldlega hægt að snúa lífi fólks á hliðina án þess að gefa því færi á að segja sína upplifun.“

Gerendur axli ábyrgð

Ólöf Tara skrifaði svo sjálf pistil sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hún benti á að mál Eiðs Smára kæmi #MeToo ekkert við. Það væri í raun óskiljanlegt að nefna það í sama samhengi og önnur mál sem tengjast MeToo. Pistill Ólafar hefur sömuleiðis vakið mikla athygli og hefur honum verið deilt víða.

„Þolendur ofbeldis eru ekki með þessari metoo byltingu að fara fram à að nafngreina hvern einasta ofbeldismann á netinu og fara fram á opinbera afsökunarbeiðni, heldur að gerendur axli ábyrgð á gjörðum sînum og viðurkenni brot sín svo brotaþolar þurfi ekki að ganga i gegnum sàrsaukafull málarferli þar sem þeir eru úthrópaður lygarar og geðsjúklingar,“ segir hún meðal annars í pistlinum.

Skrif þeirra Írisar og Ólafar má lesa í færslunum hér að neðan: