Öllu aflétt á morgun

Öllum takmörkunum í tengslum við sóttvarnir vegna Covid-19 faraldursins verður aflétt á morgun.

Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar nú rétt í þessu. Búið er að bólusetja, að minnsta kosti að hluta, 90 prósent landsmanna yfir 16 ára.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að frá og með 26. júní næstkomandi falli úr gildi allar takmarkanir á samkomum innanlands. Í þessu felst m.a. fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana.

„Í raun erum við að endurheimta á ný það samfélag sem okkur er eðlilegt að búa í og sem við höfum þráð, allt frá því að heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur voru virkjaðar vegna heimsfaraldurs fyrir rúmu ári, þann 16. mars 2020“ segir heilbrigðisráðherra. Ákvörðun um afléttingu allra samkomutakmarkana er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þann 1. júlí taka gildi breyttar reglur varðandi sýnatökur á landamærum.