Óljóst hver borgar tjónið

Enn berast fréttir af því hverjir áttu eigur í geymslum sem skemmdust úr brunanum mikla í Miðhrauni í Garðabæ á fimmtudag. Komið er í ljós að meðal muna voru  þarnaupprunalegar  upptökur Latabæjar og annað efni tengt þáttunum var geymt í eldtraustum skápum í geymsluhúsnæðinu sem brann. Morgunblaðið segir frá og einnig að ekki sé enn ljóst hver beri ábyrgð á tjóninu  en aðeins 15 prósent af andvirði geymslumuna verða bættir þeim sem eru með innbústrygginu.

Ekki er þó talið útilokað að Geymslur, sem rekstraraðili geymsluhúsnæðisins, séu bótaskyldar í tjóninu. Réttarstaða þeirra sem eiga hagsmuna að gæta er enn óljós ef haft eftir lögmanni Neytendasamtakanna.

Þá er þetta spurning um hvort að samningur Geymslna við einstaklinga sem geyma muni sína þar séu svokallaðir húsaleigusamningar eða þjónustusamningar. Slíkt er lögfræðilegt mat en fyrirtæki sem leigja út geymslur hafa mörg nefnt í samningum að um sé að ræða húsaleigusamning og því á ábyrgð leigutaka að tryggja þær eignir sem geymdar eru í leiguhúsnæðinu.

Upptök brunans er enn ókunn en íkveikja er útilokuð.

Í tilkynningu á heimasíðu Geymslna frá því á föstudag segir:

Við getum nú staðfest að vettvangur eldsvoðans er lokaður öllum öðrum en lögreglu. Þessi lokun mun gilda út alla næstu viku. Á Þeim tíma er engum hleypt inn á svæðið nema rannsakendum og aðilum á þeirra vegum.

Það er því ljóst að ekki verður hægt að vitja geymsluhúsnæðisins fyrr en af þeim loknum, að lágmarki. Í samstarfi við tryggingarfélög húseigenda er nú unnið að því að girða svæðið af og loka húsinu eins vel og unnt er. Auk þess er mönnuð öryggisgæsla á svæðinu allan sólarhringinn.

Um leið og við höfum einhverjar frekari upplýsingar sem að gagni koma munum við láta vita af þeim hér.

Ómar Jóhannsson 
Framkvæmdastjóri 
Geymslur ehf