Ólína um tíðindi gærkvöldsins: „Stjórnin virðist vera að liðast í sundur“

„Nú þykir mér týra. Stjórnin virðist vera að liðast í sundur,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Ólína gerir þar viðtal RÚV í gærkvöldi við Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að umtalsefni. Guðmundur sagði að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefði farið með rangt mál varðandi samstöðu ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks.

Jón var gestur Kastljóssins í gærkvöldi þar sem hann sagði að algjör samstaða væri innan ríkisstjórnarinnar um málefni flóttafólks. Guðmundur var spurður út í það í tíufréttum og svaraði neitandi.

„Nei það er ekki rétt og ég gerði mjög alvarlegar athugasemdir við þá vegferð sem ráðherrann er á á ríkisstjórnarfundi í morgun,“ sagði Guðmundur Ingi.

Ýmsir túlkuðu þessi orð Guðmundar á þann veg að ákveðnir brestir væru komnir í ríkisstjórnarsamstarfið.

„Í tíufréttum sjónvarpsins var Guðmundur Ingi Guðbrandsson rétt í þessu að afhjúpa Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sem ósannindamann - að hann hafi farið með ósannindi frammi fyrir alþjóð í Kastljósi kvöldsins,“ sagði Ólína eftir tíu fréttir í gærkvöldi.

„Jafnframt ljóstraði félagsmálaráðherra upp um djúpstæðan ágreining í ríkisstjórn vegna fyrirhugaðrar brottvísunar 300 flóttamanna. Nú þykir mér týra. Stjórnin virðist vera að liðast í sundur. Kannski Íslandbankasalan hafi reynt um of á þolrifin - sé enn að bíta - og fleira sé nú farið að láta undan í stjórnarsamstarfinu? VG er að minnsta kosti og augljóslega farið að líða illa í þessari hjónasæng.“