Ó­lína svarar Birni fullum hálsi og birtir gömul leynigögn

20. nóvember 2020
08:32
Fréttir & pistlar

„Hvöt Björns í mál­inu er kannski skilj­an­­leg – föður hans og flokks­ins vegna – en að­ferðirn­ar eru fyr­ir neðan virðingu manns sem vill láta taka sig al­var­­lega,“ segir Ó­lína Þor­varðar­dóttir, þjóð­fræðingur og fyrr­verandi þing­maður, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Ó­lína og Björn Bjarna­son, fyrr­verandi ráð­herra og þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, hafa skipst á orðum að undan­förnu vegna upp­lýsinga sem fram koma í nýrri bók Ó­línu, Spegill fyrir Skugga Baldur.

Tvíþættur tilgangur

Um­fjöllunar­efni bókarinnar er meðal annars spillingar í sam­bandi við manna­ráðningar og úti­lokanir af ýmsu tagi vegna skoðana fólks. Björn hefur gagn­rýnt bókina og meðal annars sagt hana ó­frum­lega. Ólína svarar Birni fullum hálsi í grein sinni í Morgunblaðinu í dag.

„Tvær grein­ar hef­ur hann nú ritað í Morg­un­blaðið í tví­þætt­um til­­­gangi. Ann­ars veg­ar til að draga at­hygli les­enda frá því meg­in­at­riði bók­ar minn­ar, sem er hvernig Sjálf­­stæðis­­flokk­ur­inn, ekki síst, hef­ur alla tíð reynt að stýra at­vinnu­­mál­um á Ís­landi og manna stjórn­­sýsl­una, dóm­­stól­ana og aðra mik­il­­væga pósta í sam­­fé­lag­inu með sínu eig­in fólki.

Hins veg­ar vill Björn breiða yfir dóm sög­unn­ar um það hvernig ís­­lensk­ir og banda­rísk­ir ráða­menn með að­stoð FBI lögðu stein í götu Hall­­dórs Lax­ness um miðja síðustu öld svo að bæk­ur skálds­ins hættu að koma út í Banda­­ríkj­un­um. Á­stæðan var kalda­stríðsand­úð á komm­ún­ist­um. Faðir Björns, Bjarni Bene­dikts­­son, lék veiga­­mikið hlut­­verk í þeirri at­b­urðar­ás, því miklu veld­ur sá sem upp­­haf­inu veld­ur.“

Ráðabrugg gegn Halldóri

Ó­lína segir að fyrir þessu séu sannanir í frum­heimildum og birtir hún þessi gögn með grein sinni í Morgun­blaðinu í dag. Um er að ræða bréfa­skipti og skeyti innan úr banda­rísku stjórn­sýslunni sem nú haf verið gerð opin­ber en leynd ríkti áður yfir.

„Stað­reynd­ir máls­ins kall­ar Björn „grill­ur“ og ráð­legg­ur mér að „fara í frum­heim­ild­irn­ar til að hafa það sem sann­ara reyn­ist“. Á­bend­ing­in er svo­lítið bros­­leg. Ég læt fylgja þess­ari grein mynd­ir af tveim­ur bréf­um – leyni­þjón­ustu­­skjöl­um – sem tala fyr­ir sig sjálf. Vona ég að Morg­un­blaðið verði við ósk minni um birt­ingu þeirra. Ef Björn léti svo lítið sjálf­ur að lesa þess­ar heim­ild­ir þá sæi hann svart á hvítu hver arf­­leifð hans er,“ segir Ó­lína og bætir við að fyrr­nefnd gögn og fleiri til hafi verið birt í ritum fræði­manna, til dæm­is í bók Hall­­dórs Guð­munds­­son­ar um ævi Lax­ness (2004) og í skrif­um dr. Ingu Dóru Björns­dótt­ur mann­­fræðings.

„Hún dreg­ur þá á­lykt­un af heim­ild­un­um að það hafi verið „ráða­brugg banda­rískra og ís­­lenskra valda­manna“ en ekki markaðs­lög­­mál sem réði því að eitt stærsta og öfl­ug­asta bóka­­for­lag Banda­­ríkj­anna hætti að gefa bæk­ur Hall­­dórs út eft­ir að fyrsta verk hans hafði verið met­­sölu­­bók. Vís­ar hún þar til ráða­bruggs „manna sem voru ekki sátt­ir við stjórn­­mála­­skoðanir Hall­­dórs og óttuðust að hagnaður hans af sölu Sjálf­­stæðs fólks rynni í vasa póli­tískra and­­stæðinga þeirra.“

Bendir Ó­lína á að Lax­ness hafi ekki haft hug­mynd um hvernig lá í málinu og segir hún það skýra hvers vegna hann bar engan kala til Bjarna Bene­dikts­sonar.

Blekkingar og munnsöfnuður

„Til­­­gang­ur­inn helg­ar meðalið hjá Birni Bjarna­­syni, og ekki eru meðulin vönduð. Hann beit­ir blekk­ing­um í bland við munn­­söfnuð, eins og sjá má af titl­in­um „Grill­ur dr. Ó­línu“. Þá er aug­­ljóst að hann sér of­sjón­um yfir lof­­sam­­leg­um um­­­mæl­um um bók mína. Að auki not­ar hann þá lúnu að­ferð að leggja mér orð í munn. Seg­ir mæðu­lega að ég hafi kallað sig „skoff­ín“ sem er þó fjarri sanni, enda eru skoff­ín og skugga­bald­ur ekki sama fyr­ir­bærið þó að skylt sé skeggið hök­unni.“

Ó­lína segir að skrif BJörns dæmi sig sjálf. „Hann gríp­ur til út­úr­­snún­inga og niðrana í vörn fyr­ir sjálf­an sig og sitt fólk. Tal­ar um önn­ur tíma­bil en þau sem til um­ræðu eru, og drep­ur um­ræðunni á dreif. Hann dreg­ur fram þau um­­­mæli Lax­ness sjálfs að lít­ill markaður hafi verið fyr­ir bæk­ur hans á er­­lendri grundu. Þau orð lét skáldið þó falla löngu áður en ljóst var að Bjarni Bene­dikts­­son hafði í eig­in per­­sónu komið þeim grun­­semd­um inn hjá banda­rísk­um stjórn­völd­um að skatt­skil Lax­ness þyrfti að skoða nán­ar þar í landi. Þegar FBI gekk í málið lá fyr­ir að eft­ir­grennsl­an­in var ætluð til að skaða orð­spor skálds­ins. Þetta stend­ur bein­lín­is í frum­heim­ild­un­um sem les­end­ur geta sjálf­ir séð ef gagnið fæst birt hér.“