Ólína ósátt: Fullorðið fólk truflar vefmyndavél RÚV af gosinu - „Óþolandi yfirgangur“

Ólína Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur og fyrrverandi þingmaður, sendir skýr skilaboð til þeirra sem stilla sér upp fyrir framan vefmyndavél RÚV af eldgosinu og eru með fíflagang.

Það getur verið tignarlegt að tylla sér við sjónvarpið og fylgjast með gosinu í Geldingadölum. Þeir sem hafa gert það reglulega hafa þó vafalítið tekið eftir fólki sem geiflar sig og grettir við vefmyndavélina – fólki heima í stofu til mismikillar ánægju. Ólína hefur lítið gaman af þessum uppátækjum og segir á Facebook-síðu sinni:

„Mikið væri nú gott ef fólk gæti stillt sig um að stilla sér upp fyrir framan vefmyndavél RÚV af gosinu og troða andlitinu eða (sem er enn verra) auglýsingum eins og vörumerkjum inn á myndina. Rétt í þessu er ég að horfa á konu sem er með einhvern bévítans poka í höndunum sem hún glennir framan í skjáinn til þess að merkið sjáist. Hún þykist vera að tala í símann,“ sagði Ólína í færslu sinni í hádeginu.

„Látum vera þó að börn freistist til þess að veifa í vélina - en fullorðið fólk sem hangir fyrir framan hana mínútum saman og eyðileggur útsýnið frá gosinu,“ segir Ólína sem hefur haft vefstreymið á skjánum í stofunni hjá sér síðan það hófst. Viðurkennir Ólína að það sé yndislegt að geta fylgst með sjálfu gosinu.

„Flíruleg andlit ferðamanna sem geta ekki hamið athyglissýkina eða stillt sig um að misnota þennan glugga að gosinu er óþolandi yfirgangur og í raun misnotkun á annars frábærri þjónustu RúV að sýna beint frá þessum einstæða viðburði.“

Margir hafa skrifað athugasemdir við færslu Ólínu og óhætt að segja að margir taka undir.