Óli Björn: „Það er galin hugmynd“

Við stjórnar­myndunar­við­ræður Vinstri grænna, Fram­sóknar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks má ekki gleymast að styrkja þurfi sjálf­stæða fjöl­miðlun á Ís­landi. Til þess þarf að stíga tvö skref, að taka Ríkis­út­varpið af aug­lýsinga­markaði og styrkja rekstrar­um­hverfi sjálf­stæðra fjöl­miðla með skatta­lækkunum.

Þetta segir Óli Björn Kára­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í gær með yfir­skriftinni „Eitt sem má ekki gleymast“. Þar skrifar Óli Björn um stöðu ís­lenskra fjöl­miðla og af­stöðu Sig­ríðar Daggar Auðuns­dóttur, formanns Blaða­manna­fé­lagsins, gagn­vart því hvernig bæta megi hag sjálf­stæðra fjöl­miðla.

„Sýn formanns Blaða­manna­fé­lagsins á fram­tíð fé­lags­manna sinna er fremur dapur­leg,“ skrifar Óli Björn og vísar þar til um­mæla Sig­ríðar í við­tali á RÚV í septem­ber­byrjun.

„Stjórn­mála­flokkar geri sér grein fyrir því að þetta er í rauninni bara spurning um það hvort þú viljir fjöl­miðla sem eru ríkis­styrktir eða enga fjöl­miðla,“ sagði for­maðurinn við það tæki­færi og enn fremur að ræða þyrfti „af meiri al­vöru hversu miklu fjár­magni ríkið verji til styrktar ís­lenskum fjöl­miðlum“ þar sem þetta væri „ekki lengur spurning um hvort, heldur hve mikið“.

„Full­yrðing formanns Blaða­manna­fé­lagsins um að það sé orðinn sam­hljómur eða sam­eigin­legur skilningur á því hjá stjórn­mála­flokkum að valið standi milli þess að setja sjálf­stæða fjöl­miðla í súr­efnis­vélar ríkisins eða hafa enga fjöl­miðla er röng,“ segir Óli Björn. Af­staða hennar litist senni­lega af tryggð við RÚV þar sem Sig­ríður starfar og þeirri trú að ríkis­rekstur fjöl­miðla sé nauð­syn­legur í nú­tíma­sam­fé­lagi.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„For­maðurinn á hins vegar marga skoðana­bræður og -systur innan þings og utan. Ríkis­út­varpið hefur notið þess að faðmur flestra stjórn­mála­manna er mjúkur og hlýr. Í hugum þeirra á allt um­hverfi frjálsra fjöl­miðla að mótast af hags­munum ríkis­rekna fjöl­miðla­fyrir­tækisins. Ríkis­styrkir til sjálf­stæðra fjöl­miðla eru því ekki annað en fórnar­kostnaður vegna Ríkis­út­varpsins, – skjól­veggur um Efsta­leiti gegn vindum breytinga og fram­þróunar,“ skrifar Óli Björn enn fremur.

Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég hef ekki lagt það í vana minn að nota stór­yrði en nauð­syn brýtur regluna. Það er galin hug­mynd að reyna að stuðla að frjálsri og ó­háðri fjöl­miðlun með um­fangs­miklum milli­færslum og ríkis­styrkjum. Verst er að með milli­færslum og styrkjum er í raun verið að rétt­læta rang­lætið á fjöl­miðla­markaði og komast þannig hjá því að fjar­læga meinið sjálft,“ skrifaði Óli Björn í grein árið 2018 um stöðu ís­lenskra fjöl­miðla á sínum tíma.

Hann hefur lagt fram frum­vörp um breytingar á rekstrar­um­hverfi fjöl­miðla sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum Al­þingis. Að hans mati sé þó ekkert því til fyrir­stöðu að mál­efnið sé rætt við stjórnar­myndunar­við­ræður.

Frum­­varp Óla Björns um breytingar á rekstrar­um­hverfi fjöl­­miðla hefur ekki fengið fram­­göngu á þingi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari