Hringbraut skrifar

Ólga á vinstri vængnum og ný framboð. átök milli ragnars þórs og gunnars smára

20. janúar 2020
17:49
Fréttir & pistlar

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR vill að ASÍ stofni stjórnmálaflokk og bjóði fram í næstu Alþingiskosningum. Ragnar hefur áður reynt að komast á þing en án árangurs. Nær engin eftirspurn hefur reynst vera eftir honum til þingstarfa. Hann kynnti fyrr í vetur hugmynd um að ASÍ beitti sér fyrir þingframboði. Það fékk misjafnar undirtektir, þar á meðal frá forseta ASÍ sem sagði hreint út að stofnun pólitískra flokka væri ekki verkefni samtakanna.

Nýlega var kynnt niðurstaða könnunar sem Ragnar Þór lét VR kosta. Niðurstaða þessarar könnunar var sú að 23% svarenda gátu hugsað sér að kjósa framboð ASÍ. Vitað er að þessi útkoma hefur valdið talsverðum skjálfta að tjaldabaki á vinstri væng íslenskra stjórnmála. Yrði af þessu og niðurstaðan eitthvað í líkingu við það sem könnunin sýndi, þá þýddi það væntanlega að Flokkur Fólksins þurrkaðist alveg út, Sósíalistaflokkur Gunnars Smára fengi varla nokkurt fylgi og þetta hlyti að koma mjög illa við Vinstri græna - sem varla mega við fleiri áföllum en flokkurinn mælist nú með 8.3% fylgi samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti um helgina. Vinstri græn hafa tapað meira en helmingi kjósenda sinna frá kosningunum haustið 2017. Með framboði ASÍ yrði tap þeirra enn meira enda yrði flokkurinn þá að mestu óþarfur.

Ef ASÍ byði fram og næði kringum 20% fylgi, má ætla að enginn annar vinstri flokkur kæmi mönnum á þing. Það leiddi væntanlega til þess að þjóðin losnaði við núverandi vinstri stjórn en Sjálfstæðisflokkurinn gæti þá að öllim líkindum myndað hægri stjórn með Framsókn og einum eða tveimur öðrum miðju eða hægri flokkum.

Margir hafa vafalaust gert sér grein fyrir þessu. Gunnar Smári Egilsson hefur þegar brugðist við og tilkynnt að Sósíalistaflokkur hans hyggist bjóða fram í öllum kjördæmum við næstu kosningar. Þá hlýtur að vakna sú spurning hvort flokkur Gunnars Smára á nokkra möguleika gegn framboði ASÍ. Ætla verður að framboð heildarsamtakanna verði mun sigurstranglegri. Þetta gæti leitt til þess að atkvæði á vinstri vængnum, sem gætu verið samtals kringum fjórðungur, dreifist á fjögur framboð og leitt til þess að einungis framboð ASÍ kæmi mönnum á þing. Það yrði þá saga til næsta bæjar ef Vinstri græn hyrfu af Alþingi eins og reyndar leit út fyrir um tíma fyrir kosningarnar vorið 2013 við lok kjörtímabils vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Framundan eru engir friðartímar á vinstri kanti íslenskra stjórnmála.