Ólafur segist ekki hafa verið undir áhrifum þegar hann skrifaði ummælin: „Við gerum öll mistök“

Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist iðrast ummæla sem hann lét falla í tengslum við skotárás á bifreið Dags B. Eggertssonar borgarstjóra liðna helgi.

Líkt og fram hefur komið hefur færsla Ólafs vakið mikla athygli. „Byrjaðu á sjálfum þér...Hér er af­leiðing af því sem hampað hefur verið frá svo­kalaða hruninu 2008. Nú er byltinginin komin heim og þú verður bara að taka því Hr. borgar­stjóri,“ skrifar Ólafur í færslunni.

Hann segist iðrast ummælanna í viðtali við Fréttablaðið.is: „Við gerum öll mis­tök. Ég hef gert önnur mis­tök í lífinu og kem til með að gera mis­tök. Þú gerir mis­tök, Dagur gerir mis­tök. Þetta var ekki gert í neinum ill­vilja eða til að særa einn eða neinn.“

Ólafur segir að hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis þegar hann skrifaði færsluna í gærkvöldi:

„Ég var bara að fara að sofa. Þetta var það síðasta sem ég gerði áður en ég slökkti á tölvunni, að setja þetta inn í bríaríi og var búinn að gleyma þessu í morgun þegar ég vaknaði.“