Ólafur segir valið standa á milli evru og tengingar við evru

Hagfræðingurinn Ólafur Arnarson fer hörðum orðum um íslensku krónuna og þau áhrif sem hún hefur á efnahagslíf Íslands í grein sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn. Í greininni beindi Ólafur athygli að því að krónan væri eini vestræni gjaldmiðillinn sem væri kominn í vaxtahækkunarferli þrátt fyrir að vextir á landinu séu þegar margfaldir miðað við það sem tíðkist í helstu viðskiptalöndunum. „Ástæðan er veikur gjaldmiðill sem hvergi er gjaldgengur utan íslenskrar landhelgi,“ skrifaði Ólafur.

Ólafur bendir á að spáð sé 4,25 prósenta stýrivöxtum árið 2023 miðað við 1,5 prósenta vexti sem nú gilda. Þetta segir hann að muni leiða til hækkunar á greiðslubyrði íslenskra heimila og fyrirtækja. Þá muni samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðavelli bíða skaða þar sem greiðslubyrði heimilanna leiði til íþyngjandi launakrafa.

„Eina leiðin til að bæta varanlega fjármögnunarumhverfi heimila og fyrirtækja hér á landi, og þar með samkeppnishæfni Íslands, er að taka hér upp stöðugan gjaldmiðil,“ skrifar Ólafur. „Til þess eru tvær raunhæfar leiðir. Við getum annaðhvort tekið upp evru með inngöngu í ESB eða fest gengi krónunnar við evru með fulltingi Evrópska seðlabankans. Reynist seinni leiðin ófær er sú fyrri eini kosturinn.“