Ólafur: Salan ber öll merki „dæmigerðra pólitískra hrossakaupa“

Ólafur Arnarson hagfræðingur segir að áform ríkisins að kaupa Bændahöllina, Hótel Sögu, bera þess merki að Framsóknarflokkurinn sé að nota skattfé til að skera Bændasamtökin úr skuldasnörunni.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að ríkið kaupi fasteignir fyrir fimm milljarða króna. Ætlunin er að megnið af þeim fjármunum verði notaðir til að kaupa Hótel Sögu af Bændasamtökunum.

Háskóli Íslands hefur lýst áhuga á húsnæðinu, fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að skoðað verði að nýta húsnæðið undir menntavísindasvið skólans.

„Vera má að einhver fengur sé í því að allt starf eins háskóla sé á einum og sama punktinum, þrátt fyrir að við blasi að slíkt eykur enn álag á samgöngumannvirki borgarinnar, sem ekki er á bætandi, en það skýtur skökku við að flytja starfsemi úr húsnæði sem var sérstaklega hannað fyrir starfsemina í húsnæði sem var hannað fyrir allt annars konar starfsemi,“ segir Ólafur í pistli í dag.

Hann segir blasa við það muni kosta mikið að breyta húsnæðinu.

„Til þess þarf að rífa allt út úr byggingunni sem fyrir er og innrétta upp á nýtt. Eftir stendur fokhelt húsnæði, í raun lóðin ein, og ljóst er að hagkvæmara væri að byggja nýtt húsnæði fyrir menntavísindasvið sé ætlunin að færa það inn á háskólasvæðið.“

Hann segir áformin bera öll þess merki að vera pólitísk hrossakaup.

„Áformin um kaup ríkisins á Hótel Sögu bera þess öll merki að vera niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðna nýrrar ríkisstjórnar. Framsóknarflokkurinn hefur löngum borið hagsmuni bænda og samtaka þeirra fyrir brjósti. Bændasamtökin, sem eiga Hótel Sögu, hafa um nokkurt skeið reynt að selja fasteignina en gengið illa vegna þess að samtökin hafa skuldsett eignina upp í rjáfur og jafnvel eilítið upp úr því,“ segir hann.

„Enginn einkaaðili er reiðubúinn til að skera samtökin niður úr þeirri skuldasnöru. Nú verður ekki betur séð en að Framsóknarflokkurinn, sigurvegari síðustu þingkosninga, nýti kosningasigurinn til að knýja á um að skattfé verði notað til að bjarga Bændasamtökunum út úr sinni klemmu. Kaup ríkisins á perlu Vesturbæjarins eru dæmigerð pólitísk hrossakaup.“