Ólafur segir mannanafnanefnd skrímslavædda – Verndar stúlkur frá því að heita Satanía

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, leggst gegn frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, um breytingar á mannanafnalögum. Vill ráðherra leggja niður mannanafnanefnd. Ólafur ræddi málið í Bítinuá Bylgjunni í morgun.

Vitnar hann í Guðrúnu Kvaran, prófessor emeritus í íslensku, sem telur að frumvarpið vinni gegn íslensku fallbeygingarkerfi. „Það er vegna þess að fallið er frá kröfu að nafnið taki íslenskri beygingu,“ segir Ólafur. Núverandi lög innihaldi helst tvennt, að þau taki íslenskri beygingu og séu notanda ekki til ama. „Það er til að vernda stúlkur frá því að heita Satanía og drengi frá því að heita Lúsífer. Þetta eru mjög einföld sjónarmið.“

Ólafur segir að foreldrum sé vel treystandi til að þess að gefa börnum sínum góð nöfn en mannanafnahefðin standi óhögguð frá landnámi. Aðspurður hvort hægt sé að vernda tunguna á sama tíma og gefa nöfn frjáls þá segir Ólafur að nöfnin séu veigamikill þáttur. „Þau verða ekki skilin frá íslenskri tungu.“ Hann segir mannanafnanefnd hafa verið skrímslavædda. „Það hefur verið leitast við að skrímslavæða mannanafnanefnd eins og menn þekkja. Sannleikurinn er sá að þar hafa setið mjög vandaðir sérfræðingar. Það orkar margt tvímælis sem er gert þar, en í meginatriðum eru engin stór vandamál í þessu. Þessi mannanafnalög eru 24-25 ára gömul. Það sést ekki á þessu frumvarpi hvert tilefnið er til breytinga.“