Ólafur Örn skammast sín og viðurkennir að hafa sjálfur verið hluti af vandamálinu

Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður segist hafa reynt að ná utan um það hvers vegna hann hefur veigrað sér við að taka þátt í umræðum um ofbeldi sem fjölmargar konur hafa lýst af hálfu karla síðustu daga.

Ólafur Örn stígur fram á Twitter-síðu sinni í færslu sem hefur vakið talsverða athygli.

„Ég trúi og ég hlusta! Ég er líka búinn að vera að reyna að ná utan um það hvers vegna ég hef veigrað mér við að taka þátt í umræðum, hversvegna ég hef kosið að sitja á hliðarlínunni, segja ekkert og hlusta og taka inn allar þessar óhugnanlegu frásagnir þeirra hugrökku kvenna sem stíga fram og benda á óréttlæti og ofbeldi sem á sér djúpar rætur í menningu okkar.“

Ólafur Örn segir að hann langi að verða partur af breytingunni, að karlar beiti konur ekki ofbeldi og áreitni.

„Afþví að ég geri mér grein fyrir því að ekkert breytist nema karlar taki þessa umræðu til sín, hlusti og skilji, er ég búinn reyna að vera heiðarlegur í að skilja líka hvernig standi á því að ég hef veigrað mér við að stíga fram og segja upphátt að ég standi með þolendum, trúi og heyri að óréttlætið er kerfisbundið í samfélaginu,“ segir Ólafur sem reynir að festa fingur á ástæðurnar.

„Ég held að ein ástæðan gæti verið að ég skammast mín fyrir að hafa verið partur af vandamálinu. Ég er unglingur í 80s og 90s og veit að á þeim tíma hef ég margoft farið yfir þessi mörk og það á sennilega við um flesta jafnaldra mína, því við héldum þá að það væri eðlilegt, en það er sem betur fer búið að benda okkur á að það er það svo sannarlega ekki og við þurfum að vera tilbúnir að heyra það og taka það til okkar svo eitthvað breytist.“

Ólafur Örn er þeirrar skoðunar að karlar þurfi að taka við keflinu og vera breytingin í gegnum samtöl við vini, vinnufélaga og syni til að breyta eitraðri menningu og viðhorfi.

„Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki alltaf virt mörk og lofa að gera það aldrei aftur og hvet alla karla til að gera það líka, standa með þolendum, hlusta og trúa.“