Ólafur og Leifur fóru í Efstaleiti og skömmuðu Gísla Martein: „Ríkisfjölmiðill á að endurspegla þjóðina“

25. janúar 2021
12:00
Fréttir & pistlar

Skiltakallarnir, Ólafur og Leifur, fóru í Efstaleiti um helgina til að koma á framfæri bréfi til þáttastjórnandans Gísla Marteins Baldurssonar, Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og stjórnar Ríkisútvarpsins. Þeir segja í færslu á Facebook að Gísli Marteinn hafi tekið vel á móti þeim. Í bréfinu er Gísli Marteinn þó skammaður.

„Okkur finnst að umræðu- og skemmtiþættir eins og þátturinn þinn séu að verða of einhliða í umfjöllun og vali á viðmælendum og oftar en ekki oft sama fólkið sem kemur fram að segja sömu hlutina,“ segir í bréfinu. „Ríkisfjölmiðill á að endurspegla þjóðina og rödd hennar, rödd allra. Hinsvegar háir það umræðunni að sífellt komi að hagsmunaaðilar eða stjórnmálamenn sem gæta hagsmuna efnamanna.“

Skiltakarlarnir Leifur og Ólafur eru mótmælendur miklir, hafa þeir staðið fyrir táknrænum mótmælum auk þess að hengja upp skilti á umferðareyjum. Finnst sumum þeir hafa farið yfir strikið, nú síðast þegar þeir fóru heim til Sigríðar Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á jólunum til að krýna hana „spilltasta stjórnmálamanninn“.

Sjá hér: Leifur og Ólafur fóru heim til Sigríðar til að gefa henni spillingarverðlaun - Myndband

Í bréfinu segja þeir að hagsmunaaðilar eigi of greiðan leið að Ríkisútvarpinu. „Í kvöld, í skemmtiþætti á föstudagskvöldi, er til dæmis boðinn mjög umdeildur stjórnmálamaður, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og vafasamur kaupsýslumaður með tengsl við fjölmörg gjaldþrotamál frá tímum hrunsins,“ segja þeir.

„Nú getum við sem sé búist við því að fá að heyra hans sjónarmið um bankasölu og önnur átakamál á skemmtilegum nótum í þættinum þínum og svo jafnvel aftur á alvarlegri nótum í Silfrinu á sunnudagsmorgun. Þar að auki hafa ótal greinar birst í fjölmiðlum undanfarið um hversu vænleg sala Íslandsbanka er fyrir ríkið. Vissulega hefur gagnrýni á þetta komið fram en við skiltakarlar teljum að það halli verulega á aðra hliðina í þeirri umræðu.“