Ólafur: Hægt að reikna með stórum skjálfta nærri Reykja­vík á næstu árum

Ólafur Fló­venz jarð­eðlis­fræðingur segir að jarð­skjálfta­fræðingar hafi marg­oft bent á að vænta megi all­stórs jarð­skjálfta á næstu árum í grennd við Brenni­steins­fjöll.

Ólafur gerði skjálftanum sem varð í gær góð skil í færslu á Face­book-síðu sinni, en eins og lands­menn vita, sér­stak­lega í­búar á suð­vestur­horninu, var skjálftinn 5,6 að stærð. Ólafur segir á­huga­vert að skoða skjálftann í jarð­fræði­legu sam­hengi og birtir jarð­fræði­kort af Reykja­nes­skaganum máli sínu til stuðnings.

„Dökk­rauða svæðið er skjálfta­belti Reykja­nes­skagans sem hefur verið virkt nánast í heild sinni á þessu ári. Gulu klessurnar eru há­hita­svæðin en bleiku svæðin sýna eld­stöðva­kerfi skagans,“ segir Ólafur sem merkti skjálftann sem varð í gær inn á kortið með ljós­blárri stjörnu.

„Þar sést að hann er í eld­stöðva­kerfinu sem kennt er við Trölla­dyngju og Krýsu­vík en sprungu­kerfi þess teygir sig alveg inn í austur­hluta Reykja­víkur og finnst þar sem virkar sprungur t.d. í Sel­ási og við Rauða­vatn. Hraunið sem ál­verið í Straums­vík stendur á varð til við gos nærri Hafnar­firði á sögu­legum tíma. Það er þó engin sér­stök á­stæða til að óttast eld­gos á þessu svæði í bili þótt í ljósi sögunnar megi búast við því innan tveggja alda eða svo,“ segir Ólafur sem bendir á að jarð­skjálfta­fræðingar hafi oft bent á að vænta megi stórs skjálfta í grennd við Brenni­steins­fjöll.

„Sá gæti orði 6-6,5 að stærð, svipaður skjálftum sem gengu yfir 1968 og 1929 og áttu líkast til upp­tök sín á þeim slóðum. Þetta svæði er heldur nær Reykja­vík en skjálftinn í dag og yrði því tals­vert harðari þar. Við það bætist að á síðustu ára­tugum hefur byggð í austur­hluta Kópa­vogs og Reykja­víkur færst mun nær lík­legum upp­tökum þessa skjálfta. Ég hef merkt lík­lega stað­setningu hans inn á kortið með dökk­fjólu­blárri stjörnu,“ segir hann.

Ólafur segir að í­búar á svæðinu þurfi ekki að hafa neinar sér­stakar á­hyggjur af þessari stöðu. Í at­huga­semdum undir færslunni segir hann að fólk þurfi að passa að hafa inn­bú sitt þannig frá gengið að ekkert geti fallið ofan á fólk.

„Festa þungar hillur og háa skápa við veggi og hafa ekki þunga hluti hátt á hillum sem geta valdið skaða á fólki og passa sér­stak­lega upp á svona lagað með til­liti til barna. Hús á Ís­landi eru sterk­byggð og engin á­stæða til að óttast þau. Skjálftar í Brenni­steins­fjöllum gætu held ég mest orðið á­móta sterkir og Suður­lands­skjálftarnir í júní árið 2000, trú­lega heldur vægari,“ segir hann.

Væntanleg fundu flestir á höfuðborgarsvæðinu jarðskjálftann sem varð SV af Djúpavatni á Reykjanesskaga laust fyrir kl 14...

Posted by Ólafur Flóvenz on Þriðjudagur, 20. október 2020