Ólafur F. segir Helga Seljan fá „smjörþefinn“ af því sem hann hafi mátt þola

Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, segir að nú fái Helgi Seljan aðeins „smjörþefinn“ af því sem hann hafi mátt þola af hálfu RÚV og Helga sjálfum í borgarstjóratíð sinni árið 2008. Ólafur hefur áður lýst því að hann hafi misst geðheilsuna vegna mótlætisins sem hann mætti þegar hann sprengdi meirihlutann með Samfylkingunni og hóf samstarf með Sjálfstæðisflokknum, hefur hann lýst því að mótmælendur hafi kallað að honum: „Farðu aftur á geðveikrahælið helvítis auminginn þinn.“

Helgi Seljan lýsti því í þætti Gísla Marteins um helgina að atlögur Samherja að sér hafi orðið til þess að hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða. Skrif Páls Vilhjálmssonar um Helga hafa víða verið fordæmd en þar gerði hann lítið úr þeim, er málið nú til skoðunar hjá stjórnendum Fjölbrautaskólans við Garðabæ þar sem Páll starfar.

Sjá einnig: Bogi Ágústs­son segir Pál Vil­hjálms­son leigu­penna Sam­herja

Ólafur var gestur í frægu viðtali í Kastljósi árið 2008 þar sem Helgi spurði hann út í ýmis atriði, fóru þeir hálfpartinn að rífast og sást Ólafur svo rjúka út úr viðtalinu í lokin.

„Um framkomu Helga Seljan við mig,“ segir Ólafur á Facebook og birtir myndband af viðtalinu.

„Þessi Kastljósþáttur var bara örlítill hluti af dónaskap og lílsvirðingu Helga Seljan og Rúv í minn garð í borgarstjóratíð minni.“

Hann beinir svo spjótum sínum að Helga:

„Þessa dagana fær Helgi smjörþefinn af því einelti sem ég varð fyrir af hans háflu, ásamt Rúv og vinstri mönnum. Fordómar þessa liðs gagnvart geðsjúkdómi mínum eru víðsfjarri þegar þeirra maður á í hlut,“ segir hann.

„Þetta var í lok júlí 2008 og aðeins 2 vikur þar til Hanna Birna sleit samstarfinu við mig (13. ágúst 2008). Rétt fyrir þann tíma kallaði Helgi til sín í Kastljósið - að mér fjarstöddum - blaðamennina Óskar Hrafn Þorvaldsson og Pétur Gunnarsson.

Óskar sagði alla þá ljótu hluti um mig sem Helgi vildi heyra - að ég væri furðufugl, drykkjusjúklingur og spilltur stjórnmálamaður. Þessi lygi var étin upp af breska blaðinu Daily Mail 13. október 2008 - "according to Icelandic National TV".“

Hér má sjá viðtalið fræga: