Ólafur Ágúst: „Ég hef nú ekki einu sinni hugleitt það“

Ólafur Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, er kjörræðismaður Rússlands á Íslandi. Margar þjóðir hafa brugðist við innrás Rússa í Úkraínu og meintum stríðsglæpum þeirra með því að slíta á samstarf við þá.

Ólafur Ágúst segir við Fréttablaðið í dag að hann hafi ekki einu sinni hugleitt það.

„Ég hef nú ekki einu sinni hugleitt það,“ segir hann og bætir við: „Það er ekki brjálað að gera í þessu. Þetta snýst um að aðstoða almenna borgara, miðla menningu og aðstoða fólk í neyð. Til dæmis flóttafólk eða túrista. Eins og staðan er núna eru engir að koma.“

Þá segist Ólafur ekki hafa nein tengsl við stjórnvöld í Kreml. Kjötsölunni hafi verið sjálf hætt eftir innlimun Krímskaga árið 2014, en þá settu Rússar hömlur á matarinnflutning frá Íslandi og fleiri löndum sem beittu þá þvingunum.

Ólafur hefur verið kjörræðismaður Rússlands á Íslandi árið 2014 en í viðtali við héraðsfréttamiðilinn Feyki það ár taldi hann nafnbótina eiga eftir að nýtast honum vel í viðskiptum í Rússlandi.

Í Fréttablaðinu í dag kemur einnig fram að Mjólkursamsalan hafi ekki rift samningum við rússneska aðila um framleiðslu, sölu og dreifingu á Ísey skyri þar í landi.

„Við höfum verið að skoða þessi mál og fylgst með en ekki tekið neina ákvörðun,“ segir Einar Einarsson, rekstrarstjóri Íseyjar hjá MS, í samtali við Fréttablaðið.