Óla Birni fórnað fyrir Arnar Þór

Arnar Þór Jónsson, sem ekki náði kjör til Alþingis í kosningunum um síðustu helgi, tilkynnti í gær að hann ætlar að segja af sér embætti héraðsdómara. Óvenjulegt er að þeir sem mistekst að komast á þing byrji á því eftir kosningar að segja upp í vinnunni.
Ekki komu þessi tíðindi þó öllum á óvart. Öfgahægrimenn í Sjálfstæðisflokknum urðu fyrir miklum vonbrigðum með úrslit kosninganna þó að þau hafi orðið flokknum illskárri en stefndi í fyrir kosningar. Helstu vonarstjörnur einangrunarsinna og kyrrstöðuafla í flokknum náðu ekki inn á þing. Brynjar Níelsson féll óvænt í Reykjavíkurkjördæmi norður og Arnar Þór Jónsson var langt frá því að komast inn í Kraganum. Þriðja vonarstjarna ysta hægrisins í flokknum, Sigríður Andersen, beið afhroð í prófkjöri flokksins og skipaði heiðurssæti á lista í Reykjavík.
Einangrunarsinnar í Sjálfstæðisflokknum horfa til Arnars Þórs sem lykilmanns í þingflokknum á komandi árum, en fyrir kosningar var ljóst að ekki kæmist hann á þing í þessari atrennu og jafnvel gæti Óli Bjórn Kárason verið í hættu í fjórða sæti listans.
Ljóst er að öflugir aðilar í Sjálfstæðisflokknum geta vart á sér heilum tekið vegna þess að Arnar Þór náði ekki á þing. Fyrir prófkjörið í Kraganum leigði hann sal í Kópavogi hélt fund með lykilstuðningsmönnum. Athygli vakti að þar voru þungavigtarmenn úr Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ fjölmennir. Í hópi þeirra var sjálfur bæjarstjórinn, Gunnar Einarsson, og Lárus Blöndal, lögmaður og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, sem er hægri hönd Bjarna Benediktssonar. Þetta þótti til marks um að framboð Arnars Þór nyti velþóknunar formanns flokksins.
Fyrir nokkrum dögum sást til Óla Björns Kárasonar, Sigurbjörns Magnússonar, stjórnarformanns Árvakurs, og Óskars Magnússonar, fyrrverandi útgefanda Morgunblaðsins, þar sem þeir funduðu á veitingahúsi í höfuðborginni.
Heimildir eru fyrir því að menn úr ysta hægri kjarna Sjálfstæðisflokksins flétti nú saman atburðarás ætlaða til að fá Óla Björn til að víkja af þingi fyrir Arnari Þór, sem er fyrsti varaþingmaður flokksins í Kraganum. Fléttan gengur út á að Davíð Oddsson stígi úr ritstjórastóli á Morgunblaðinu og Óli Björn setjist í stólinn. Þetta mun vera talið raunhæft enda verður Davíð 74 ára í janúar og er kominn langt fram yfir síðasta söludag.
Óli Björn hefur verið einn harðasti stuðningsmaður stórútgerðarinnar á Alþingi og ekki mátt heyra á það minnst að hróflað verði við gjaldtöku fyrir aflaheimildir á þann veg að útgerðin greiði eðlilegt endurgjald fyrir afnot af þjóðarauðlindinni. Hann er því eigendum Morgunblaðsins mjög vel ásættanlegur í ritstjórastól, en sem kunnug er er Árvakur í eigu stórútgerðarinnar og þar eru fyrirferðarmestir aðilar tengdir Ísfélaginu í Vestmannaeyjum, Samherja og Kaupfélagi Skagfirðinga. Óli Björn er fæddur á Sauðárkróki og hefur ávallt haldið góðu sambandi við Þórólf Gíslason kaupfélagsstjóra. Fátt ætti því að standa í vegi fyrir því að hann setjist í ritstjórastól Morgunblaðsins, ef tekst þá að sannfæra Davíð Oddsson um að hans tími sé liðinn, en sem fyrr segir er hann kominn langt fram yfir síðasta söludag.
Varla verður erfitt að sannfæra Óla Björn um að taka við ritstjórn Morgunblaðsins. Hann er Morgunblaðsungi, eins og Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri blaðsins, orðaði það eitt sinn. Óli Björn er í grunninn blaðamaður, hóf feril sinn á Morgunblaðinu, og stofnaði meðal annars Viðskiptablaðið áður en hann varð ritstjóri DV við hlið Jónasar Kristjánssonar 1999. Árið 2001 keyptu aðilar tengdir Ísfélaginu í Vestmannaeyjum DV og Óli Björn varð einn ritstjóri. DV, sem ávallt hafði gengið vel undir stjórn Sveins R. Eyjólfssonar og Jónasar Kristjánssonar, enda blaðið með víða skírskotun til lesenda, breyttist undir stjórn Óla Björns og Einars Sigurðssonar, sonar Guðbjargar Matthíasdóttur eiganda Ísfélagsins, í einstrengingslegt flokksblað Sjálfstæðisflokksins, missti lesendur og auglýsendur. varð gjaldþrota á örfáum misserum og dó drottni sínum 2003, þótt síðar kæmu nýjir eigendur að því og endurlífguðu það.
Eigendur Morgunblaðsins hafa sýnt að rekstrarafkoma þess skiptir þá engu máli svo lengi sem blaðið boðar ómengað guðspjall stórútgerðarinnar, dásamar BREXIT og íslensku krónuna og fordæmir ESB. Óli Björn Kárason tikkar í öll box. Og Arnar Þór Jónsson kemst á þing.
- Ólafur Arnarson