Óheppnin eltir Aldísi: „Ég er full af sektarkennd og skömm“

Leikkonan Aldís Amah Hamilton biðlaði til íbúa í Vesturbænum í gærkvöldi að hafa augun hjá sér. Ekki eru margir dagar liðnir síðan Aldís auglýsti eftir græna gáranum Limoncello sem slapp út um gluggann á heimili hennar. Nýtti Aldís tækifærið á verðlaunahátíð Eddunnar að lýsa eftir fuglinum.

Aldís segir í færslu sem birtist í gærkvöldi að fyrir rúmri viku hafi henni og kærasta hennar, Kolbeini Arnbjörnssyni, gefist tækifæri til að fóstra annan fugl sem hafði einnig sloppið.

„Sá fugl er víst þekktur fyrir að vera útsmoginn og ég sagði ekki seinna en í morgun að hennar vegna þyrfti eflaust að vængstýfa hana, allavega meðan við leyfum henni að kynnast og treysta okkur.“

Aldís fór í aðgerð í gærmorgun og á sama tíma fór Kolbeinn út á land. Á meðan á þessu stóð tókst fuglinum að opna búrið sitt og skellti hann sér „út á lífið“ eins og Aldís orðar það. „Já, hún er á unglingsárum sem fugl og hlýðir engum reglum um útivistartíma né lætur forráðamenn vita.“

Aldís biðlaði til fólks að hafa augun opin og ef fuglinn myndi slysast inn til einhvers megi viðkomandi gjarnan hafa samband. „Ég finn leið til að ná í hana en má hvorki hlaupa um götur Vesturbæjarins né keyra vegna róandi lyfja eftir þessa aðgerð og get því ekki elt hana uppi.“

Fuglinn heitir Kría og segir Aldís það huggun harmi gegn að veðrið úti sé með ágætum þessa stundina. „Það þarf vart að taka fram að ég er full af sektarkennd og skömm að hún sé í þessum aðstæðum og verður búrið hennar heldur betur tekið í gegn komi hún til baka. Vonandi ratar hún í öryggið.“

Svo virðist sem Kría hafi sést eftir að Aldís birti færsluna og birtist mynd af henni í Vesturbæjargrúppunni í gær. Engum sögum fer þó af því hvort Kría hafi náðst.