Ögmundur sagði af sér ráðherraembætti í einu frekjukastinu

Bók Ögmundar Jónassonar, Rauði þráðurinn, er að að mörgu leyti merkileg. Varla fer á milli mála að Ögmundur er einn harðdrægasti og duglegasti stjórnmálamaður seinni tíma á Íslandi. Hann sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið eða Vinstri græna í 21 ár. Þar af átti hann einungis sæti í ríkisstjórn í þrjú ár. Flokkar hans komust ekki til valda allan þann tíma nema árin 2009 til 2013, í kjölfar bankahrunsins. Alþjóðlega bankakreppu þurfti og algert bankahrun á Íslandi til að flokkur Ögmundar kæmist til valda.

Þá gekk mikið á í þjóðfélaginu og einnig innan ríkisstjórnarinnar þar sem hver höndin var uppi á móti annarri. Ögmundur tók sæti í ríkisstjórn vorið 2009 en sagði af sér ráðherraembætti áður en fimm mánuðir voru liðnir vegna ágreinings um Icesavemálið sem reyndist ríkisstjórninni hrikalega erfitt viðureignar.

Fljótlega eftir að Ögmundur sagði af sér haustið 2009 hóf hann að knýja á um að komast í ríkistjórnina að nýju en hvorki Samfylkingin né hluti þingflokks Vinstri grænna höfðu áhuga á því. Honum tókst þó að fá sínu framgengt haustið 2010 þegar hann tók við embætti innanríkisráðherra.

Í bókinni lýsir hann stöðugum átökum innan ríkisstjórnarinnar, einkum við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon sem leiddu stjórnarstarfið. Ljóst er að engin samstaða var milli þeirra þriggja um lausn margra erfiðra mála. Icesave þvældist endalaust fyrir þeim, Núbo-málið gerði nánast út af við stjórnina og Vinstri grænum hélst illa á þingmönnum sínum. Fimm þeirra gengu úr þingflokknum áður en yfir lauk og Ögmundur lét illa af stjórn.

Vinstri stjórn Jóhönnu virtist hafa það eina markmið að hanga við völd út kjörtímabilið þó að hún væri nánast búin að missa þingmeirihlutann, stuðning kjósenda og allan trúverðugleika. Þetta tókst.

Flokkarnir töpuðu báðir miklu fylgi í kosningunum 2013. Vinstri grænir voru um tíma við það að þurrkast út af þingi þar til Steingrímur sagði af sér formennsku og vék fyrir Katrínu Jakobsdóttur varaformanni sem setið hafði í skjóli og næsta aðgerðarlaus í menntamálaráðuneytinu. Við þá breytingu tókst að stöðva fylgishrunið og flokkurinn náði 12 prósenta fylgi í kosningunum 2013 – sem er reyndar sama fylgi og hann fékk í þingkosningunum haustið 2021. Samfylkingin hefur ekki enn jafnað sig eftir vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Í bók sinni leggur Ögmundur samfellda áherslu á það hve heiðarlegur hann sé og samkvæmur sjálfum sér. Víst er það rétt að hann hefur ávallt lagt málstað hinna verr settu lið og barist fyrir þá sem búa við slæm starfskjör. Ekki verður það frá honum tekið. En sitthvað í fari hans sjálfs ber vott um tvískinnung. Ögmundur var formaður BSRB þegar hann var kjörinn á þing 1995. Ekki sleppti hann hendi af því embætti fyrr en hann tók sæti í ríkisstjórn árið 2009. Í fjórtán ár sat hann því báðum megin við borðið sem valdamaður hjá ríkinu sem þurfti að semja um starfskjör við starfsmannafélag ríkisstarfsmanna. Þetta þótti mörgum ganga illa upp.

Í bók sinni er Ögmundur mjög gagnrýninn á atvinnulífið hér á landi og reyndar um allan heim. Einkum er honum uppsigað við banka og fjárfestingarstarfsemi. Hreytir hann gjarnan ónotum í forsvarsmenn fyrirtækja og atvinnulífs og talar niðrandi um „auðvald“ sem nánast glæpastarfsemi. Á Íslandi er svokallaður Eimreiðarhópur nánast úthrópaður í gegnum alla bókina. Þar var um að ræða unga menn sem voru áberandi í Sjálfstæðisflokknum á áttunda áratug síðustu aldar og urðu síðar miklir áhrifamenn í samfélaginu.

Ögmundur eyðir miklu púðri í að gagnrýna útþenslu banka og viðskiptalífs í aðdraganda hrunsins og dregur ekkert af sér við að útnefna sökudólga í því samhengi. Hann er þó ekki alveg samkvæmur sjálfum sér í því efni þegar fyrir liggur sú staðreynd að Ögmundur átti lengi sæti í stjórn Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna (LSR), og var formaður sjóðsins um tíma. LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins og fjárfesti síst minna en aðrir lífeyrissjóðir í bönkum og öðrum skráðum „spillingarfélögum“ sem fóru illa í hruninu. Sem forystumaður á vettvangi lífeyrissjóða studdi hann því menn og starfsemi sem hann gagnrýnir nú harkalega í bókinni.

Þá gætir einnig mikils tvískinnungs hjá Ögmundi gagnvart Evrópusambandinu og málefnum sem tengjast alþjóðavæðingu. Í gegnum alla bókina er að finna skæting höfundar í garð ESB sem sjaldnast er rökstuddur. Ögmundur sat hins vegar í þrjú ár í ríkisstjórn sem sótti um aðild Íslands að Evrópusambandinu og átti í áralöngum samningaviðræðum við sambandið um inngöngu Íslands. Ríkisstjórnin sem Ögmundur, stækur andstæðingur ESB, átti sæti í er eina ríkisstjórn Íslandssögunnar sem hefur sótt um aðild að ESB. Framkoma af þessu tagi er ekkert annað en tvískinnungur.

Engum sem les bókina dylst að Ögmundur er gegnheill vinstri maður, sósíalisti eða kommúnisti. Hann er enginn pólitískur tækifærissinni sem er tilbúinn að leggja hugsjónir og stefnu til hliðar fyrir ríkisstjórnarþátttöku eða valdastöðu flokkseigenda eins og raunin hefur orðið nú í seinni tíð.

Hann lætur forystu Vinstri grænna hafa það óþvegið vegna þeirrar samleiðar sem flokkurinn hefur valið að eiga með höfuðandstæðingi sínum, Sjálfstæðisflokknum. Ögmundi er verulega óglatt vegna þeirrar stöðu og leggur til að nafni flokksins verði breytt. Vinstrihreyfingin grænt framboð, eins og flokkurinn heitir víst fullu nafni, ætti að einfalda nafngiftina að mati Ögmundar, fella út vinstri og grænt og taka upp nafnið HREYFINGIN FRAMBOÐ (HF). Það væri meira réttnefni að hans mati.

Þó að sitthvað sé gagnrýnisvert í málflutningi Ögmundar er meginniðurstaðan sú að bókin lýsir sérstökum ferli mikils baráttumanns sem heggur á bæði borð og hlífir engum. Hvort hann reri lífróður sinn í rétta átt upp á móti straumnum eða bara fram að brúninni skal ósagt látið hér.

- Ólafur Arnarson.