Ófögur sjón mætti Hermanni á Keflavíkurflugvelli: Gamli maðurinn heppinn að stórslasast ekki

Hermann Guðmundsson, forstjóri Kemi, kom til landsins á laugardag eftir að hafa dvalið í sólinni í Flórída síðustu átta vikur. Kalt var í veðri á laugardag og segir Hermann að það hafi verið hressandi að koma til landsins. Skugga hafi þó borið á heimkomuna vegna atviks sem varð þegar farþegar voru að fara út úr vélinni.

„Vélin var sett á útistæði og þrátt fyrir að það væri vitað með góðum fyrirvara þá var engin rúta mætt til að sækja farþega, eftir langt flug þá er öllum farþegum mikið í mun að komast frá borði enda þreyta í mannskapnum eftir að hafa flogið alla nóttina,“ sagði Hermann í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gær og vakti talsverða athygli.

„Síðan kemur nú rútan og þá var búið að keyra tröppurnar að hurðinni og hún opnuð. Fólk sem var fyrir aftan okkur fór fyrst frá borði, hér var um að ræða öldruð hjón sem áttu erfitt með gang,“ sagði Hermann og bætti við að konan hafi átt nokkuð erfitt með að athafna sig niður brattar tröppurnar. Var hún með göngustaf í annarri hönd á meðan hún ríghélt í handriðið niður tröppurnar með hinni.

„Maðurinn var með sitt hvora handtöskuna og gekk á undan henni niður, þegar 2 þrep voru eftir sást að snjór og bleyta voru í þrepunum,“ segir Hermann og bætir við að það sem gerðist næst hafi verið óskemmtilegt.

„Það næsta sem gerist er að gamli maðurinn missir fótanna í bleytunni og fellur fram fyrir sig og skellur með andlitið í flugplanið enda með báðar hendur bundnar við töskurnar. Farþegar þustu niður tröppurnar til að hlúa að manninum sem var illa brugðið og hafði greinilega fengið talsvert höfuðhögg. Aðrir farþegar tóku konuna að sér og tryggðu að hún kæmist klakklaust niður á jafnsléttu.“

Hermann sagði að punkturinn með færslu sinni væri þessi: „Þessar aðstæður henta afar illa þeim sem erfitt eiga með gang eða nota hjólastóla. Þar til úr verður bætt þá þarf starfsfólk til að sinna farþegum og tryggja þeim örugga leið frá borði.“

Hermann var í viðtali um málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun og þar sagðist hann hafa fengið fregnir af manninum eftir að hann birti færsluna. „Mér skilst að hann sé við ágætis heilsu en hruflaður og eitthvað skaddaður á hné og andliti.“