Ofbýður orðfæri málvöndunarmanna í garð Lilju: „Þetta er dónaskapur og persónuníð sem ekki á að líðast“

6. ágúst 2020
15:38
Fréttir & pistlar

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, hefur aldrei ofboðið umræðan í Facebook-hópi málvöndunarmanna „Málvöndunarþættinum“ eins og nú í dag eftir að umræður sköpuðust um framburð Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra á orðinu „skólarnir“, sem hún bar fram sem „skólanir“ í viðtali í kvöldfréttum stöðvar 2. Eiríkur segir að orðfæri manna í umræðunni hafi gengið fram af sér.

„Oft hefur mér ofboðið umræðan í þessum hópi – hneykslunin, hrokinn, umvöndunin, yfirlætið, orðfærið, dónaskapurinn, meinfýsnin, illgirnin – en aldrei sem nú. Tilefnið var viðtal við menntamálaráðherra í fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem hún sagði „skólanir“ – án „r“. Þetta er reyndar ekkert einsdæmi – þótt lítið hafi verið skrifað um þennan framburð hefur lengi verið vitað að hann er til og hefur helst verið tengdur við Suðurland, einkum Árnessýslu,“ skrifar Eiríkur í færslu í hópnum.

„Þetta er sem sé engin nýjung og engar líkur á að menntamálaráðherra hafi tekið þennan framburð upp hjá sjálfri sér. En það er vissulega rétt að fáir virðast þekkja framburðinn og því ekkert undarlegt að fólk taki eftir honum og spyrjist fyrir um hann. Það er ekki heldur neitt undarlegt að fólk sem ekki þekkir framburðinn telji hann rangan,“ heldur hann áfram.

„Við erum ansi föst í því að íslenskan sé og eigi að vera eins og við ólumst upp við hana – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera. En það sem gekk fram af mér að þessu sinni var orðfærið í umræðunni,“ segir Eiríkur.

Því næst nefnir hann eftirfarandi dæmi um setningar og setningarbrot sem komu fram í umræðu meðlima hópsins um framburð ráðherrans:

„ekki boðlegt af menntamálaráðherra landsins“

„linmælgi“

„skrítið að heyra þetta latmæli“

„hefur ekki þótt til fyrirmyndar“

„mjög sorglegt að menntamálaráðherra skuli ekki tala betri íslensku“

„snilld að hafa menntamálaráðherra sem er ekki talandi á eigin tungu“

„kann ekki að bera fram réttilega“

„svona mannvitsbrekkur eru við stjórnvölinn í menntamálum þjóðarinnar“

„lágmarks krafa til menntamálaráðherra að […] hún […] sé þokkalega talandi á íslenska tungu“

„bull og getuleysi“

„talkennarar og skólar […] hafa lausnir við svona málhelti“

„frammistaða nefnds menntamálaráðherra […] öfugþróun en ekki þróun“

„ambögur og málhelti“

„ekkert til sóma“

„ofreyni sig við að reyna að vanda sig“

„mögulegt að tunguhaft valdi þessum framburði hjá ráðherranum“

„menntamálaráðherra þjóðarinnar er ótalandi á eigin tungu“

„afleitt að vera svona linmælt“

„klúðra svona feitt“

„linmælið er ekkert nýtt vandamál“

„ráðherramállýska“

„of ung til að valda embættinu“

„stressast svona og gengur í barndóm þegar hún talar“

„þennan sérstæða menntamálaráðherraframburð“

„hræðilegt að heyra“

Eiríkur segir yfirgengilegt að fólk skuli viðhafa slíkt tal um Lilju, jafnvel þótt hún sé menntamálaráðherra og þar með opinber presóna sem þurfi að þola gagnrýni. „En þetta á ekkert skylt við málefnalega gagnrýni. Þetta er dónaskapur og persónuníð sem ekki á að líðast í opinberri umræðu. Og þetta á ekki heldur neitt skylt við málvöndun. Dettur virkilega einhverjum í hug að umræða af þessu tagi sé íslenskri tungu til framdráttar?“