Óðinn: „Af hverju er rjúpna­veiði ekki ein­fald­lega bönnuð?

28. október 2020
15:53
Fréttir & pistlar

Óðinn Jóns­son, fjöl­miðla­maður og fyrr­verandi frétta­stjóri RÚV, veltir því fyrir sér hvers vegna rjúpna­veiði þetta árið verði ekki ein­fald­lega bönnuð.

Rjúpna­veiði­tíma­bilið hefst á sunnu­dag og stendur það yfir til og með 30. nóvember, frá og með föstu­dögum til og með þriðju­dögum. Um­hverfis­stofnun hefur hvatt veiði­menn til að gæta hófs í veiðum en einnig hvatt þá til að fylgja sótt­varnar­reglum og til­mælum sem í gildi eru á hverjum tíma.

„Rjúpna­stofninn hefur ekki verið veikari í 25 ár en Co­vid-far­aldurinn er í vexti á landinu. Ör­væntingar­fullur eltingar­leikur byssu­manna upp um fjöll og firnindi um vetur er ekki einka­mál þeirra. Af hverju er rjúpna­veiði ekki ein­fald­lega bönnuð?“ spyr Óðinn á Twitter.

Bent var á það á vef Um­hverfis­stofnunar fyrr í þessum mánuði að veiði­stofninn nú sé með minnsta móti síðan mælingar hófust árið 1995. Hefur stofninn að­eins einu sinni verið metinn við­líka lítill en það var árið 2002.