Oddur skorar á útvarpsmenn: Jólalögin orðin þreytt áður en aðventan hefst

Oddur Þórðarson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar pistil í blað dagsins sem eflaust margir geta tekið undir. Þar skrifar hann um „jólasíbyljuna“ svokölluðu sem hefst alltaf fyrr og fyrr.

Í grein sinni, sem er býsna skemmtileg aflestrar, tekur Oddur strax fram að hann sé mátulega mikið jólabarn. Það er kannski eins gott því annars væri hann án efa orðinn snarvitlaus áður en desembermánuður gengur í garð.

„Hins vegar er ég líka mátulega mikill kvíðasjúklingur og nú, eins og fyrri ár, hef ég stórar áhyggjur af því að snemmtækt jólaskap mitt verði týnt og tröllum gefið þegar jólin ganga loksins í garð. Síbylja útvarpsins minnir mig statt og stöðugt á að nú séu að koma jól með tilheyrandi jólalagaspili og jólaauglýsingum um að „jólin mín byrji í IKEA“ eða eitthvað álíka,“ segir hann.

Hann bendir á að jólasíbyljan svokallaða hefjist á morgnana á leið í vinnuna, heldur áfram meðan hann er í vinnunni og lýkur ekki fyrr en síðdegis þegar hann keyrir heim.

„Allan þann tíma er gengið á árlegan jólaskapssparnað, sem ég hef safnað yfir árið, með þeim afleiðingum að það verður lítið eftir þegar aðfangadagur rennur loks upp. Af hverju geta útvarpsmenn ekki komið mér í jólaskap með einu bylmingshöggi um miðjan desember?“

Oddur beinir svo ákveðnum tilmælum til útvarpsmanna landsins.

„Væri ekki hægt að spara jólasíbyljuna aðeins lengur og sprauta öllu Ef ég nenni-klabbinu beint í æðar hlustenda með hátíðlegum hætti svona 18. desember, þannig að maður sé í sæluvímu fram yfir áramót, í stað þess að maður sé orðinn þreyttur á þessu áður en aðventan yfirhöfuð hefst?“