Óbólusettir ætla að fylla pósthólfið hjá Willum: „Hann sér fjöldann, hreyfinguna sem er að stækka og stækka“

Hópur óbólusettra Íslendinga, auk fólks sem er á móti bólusetningaskyldu, hafa tekið sig saman og hyggst fylla pósthólfið hjá Willum Þór Þórssyni, nýjum heilbrigðisráðherra, af póstum um gildi þess að láta ekki bólusetja sig við Covid-19.

„Einfaldasta leiðin til að hafa áhrif er að skrifa persónulegt bréf til þeirra ráðamanna sem stjórna landinu "fyrir okkur". Málefnaleg skrif og rökstudd, svo þeir hlusti og fari ekki í vörn,“ segir Marta nokkur sem hvetur til þess að skrifa til hans. Sjálf hefur hún skrifað honum tölvupóst.

Margir hafa tekið undir með henni

„Segjum Willum Þór hvers vegna við viljum ráða því sjálf hvort við verðum bólusett eða ekki. Þetta eru auðvitað sjálfsögð mannréttindi og við höfum fullan rétt á að efast um gildi bólusetninga núna miðað við það sem á undan er gengið með hliðarverkanir þeirra.“

Umræður hafa skapast um þetta í hópnum, þar á meðal einn sem segir:

„Ég get nokkurn vegin lofað því að Willum er ekki að fara að lesa tugi/hundruði pósta umfram það sem hann er að gera til að koma sér inn í nýtt starf. Ég veit það hinsvegar að Willum er málefnalegur maður og til í skoðanaskipti, ef hægt væri að fá fund með honum þá myndi hann klárlega hlusta á rök.“

Marta svaraði:

„Þótt hann nái ekki að lesa allt þá sér hann tölvupóstana frá okkur. Það er sterkt!! - Hann sér fjöldann, hreyfinguna sem er að stækka og stækka í landinu okkar, af fólki sem kýs að ráða því sjálft hvernig það ver ónæmiskerfið sitt.“