Nýr listi yfir ríkustu menn heims – Sjáðu hvað Björgólfur á mikið

Tímaritið Forbes hefur birt nýjan lista yfir ríkustu einstaklinga heims og líkt og fyrri ár eiga Íslendingar sinn fulltrúa á listanum.

Björgólfur Thor Björgólfsson er í sæti 1.444 að þessu sinni og fellur hann nokkuð á listanum frá því í fyrra þegar hann var í sæti 1.063. Þrátt fyrir það hafa auðæfi hans aukist á töluvert á milli ára; eru þau metin á 2,2 milljarða Bandaríkjadala nú samanborið við 2 milljarða dala í fyrra. Árið 2019 voru þau metin á 2,1 milljarð dala, 2 milljarða árið 2018 og 1,8 milljarða árið 2017.

Björgólfur er með ítök víða í viðskiptalífinu en hann á meðal annars hlut í svissneska lyfjafyrirtækinu Xantis og fjarskiptafyrirtækinu WOM. Samkvæmt umfjöllun Forbes hefur Björgólfur einnig verið duglegur að fjárfesta í rafmyntum og allskonar sprotafyrirtækjum, Zwift, Deliveroo og Stripe svo eitthvað sé nefnt.

Jeff Bezos, stofnandi Amazon, er í efsta sætinu á lista Forbes en eignir hans eru metnar á 177 milljarða Bandaríkjadala. Elon Musk, eigandi Tesla og SpaceX, er í öðru sæti og í þriðja sæti er Bernard Arnault, stjórnarformaður LVMH Moët Hennessy – Louis Vuitton SE sem selur allskonar fokdýrar lúxusvörur.