Nýr aðlaðandi miðbæjarkjarni mun efla bæjarbraginn og gleðja augað

Nýr miðbæjarkjarni er að rísa í Árborg, nánar tiltekið á Selfossi, á miðbæjarsvæðinu sem blasir við þegar komið er yfir Ölfusárbrúnna. Miðbæjarkjarninn er farinn að taka á sig mynd og iðar svæðið af framkvæmdum þar sem allt er að gerast. Sjöfn Þórðar heimsækir Leó Árnason framkvæmdastjóra Sigtúns þróunarfélagsins sem stendur að uppbyggingu á nýja miðbænum. Leó er einn þeirra sem hefur stýrt verkefninu frá byrjun og er með puttann á púlsinum. Sjöfn fær innsýn í framkvæmdirnar og spjallar við Leó á Kaffi Krús um framtíðarsýnina.

„Miðbæjarkjarninn mun verða samansettur af blandaðri byggð þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði í bland við atvinnuhúsnæði. Miðað er við að byggðin í miðbænum verði lágreist en þétt, í samræmi við þá húsagerð sem er að finna í götum kringum miðbæjarsvæðið,“ segir Leó og segir að framkvæmdirnar gangi vel. Hugmyndin er að skapa líflegan miðbæjarkjarna þar sem alhliða iðja og afþreying geri Selfoss fært að taka með kraftmeiri hætti en áður þátt í ferðaþjónustunni í landinu. Unnið er að því að reisa táknrænan og aðlaðandi miðbæ með aðdráttarafl fyrir bæjarbúa og gesti og má með sanni segja að nýi miðbæjarkjarninn muni efla bæjarbraginn til muna.