Ný könnun Maskínu staðfestir þá þróun að Samfylking og Miðflokkur gefi nú eftir

Ný könnun Maskínu sýnir svipaða niðurstöðu og könnun MMR frá í síðustu viku. Maskína byggir á tvöfalt fleiri svörum en MMR eða 2.198 sem er býsna traustvekjandi stærð úrtaks. Samfylking fer niður í fjórtán prósent og níu þingmenn en hefur verið að mælast með sautján prósent í nokkurn tíma. Þannig virðist vera að uppröðun flokksins á framboðslista í Reykjavík mælist ekki vel fyrir. Miðflokkurinn hefur verið að missa niður fylgi í könnunum og mælist nú með tæp sjö prósent og fengi fimm menn.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,5 prósent fylgi, sama og í könnun MMR, sem skilaði flokknum fimmtán þingmönnum. Vinstri græn fá einnig sama og í könnun MMR eða 13,5 prósent og níu menn kjörna á þing og tapaði tveimur þingsætum frá kosningunum. Viðreisn bætir við sig fylgi og fengi nú 12,7 prósent og átta menn kjörna. Flokkurinn hefur tvöfaldað stuðning sinn og þingmannafjölda frá síðustu kosningum. Viðreisn er því smám saman að komast í lykilstöðu undir formennsku Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Píratar fengju 10,6 prósent fylgi samkvæmt könnun Maskínu og sjö menn kjörna. Framsókn næði 10,1 prósent fylgi og sjö mönnum, Flokkur fólksins félli út af þingi en Sósíalistaflokkurinn næði í þessari könnun rétt yfir fimm prósent og kæmi þremur fulltrúum á þing. Þessir tveir flokkar hafa verið ýmist rétt undir eða rétt yfir þeim mörkum sem þarf að ná til að koma fólki á þing samkvæmt flestum könnunum í vetur.

Ef úrslit kosninganna í september yrðu í samræmi við þessa könnun væri ríkisstjórnin fallin og þyrfti að bæta Miðflokknum við til að geta haldið völdum áfram.

Unnt væri að mynda meirihlutastjórn Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna sem hefði 33 þingmenn á bak við sig.

Unnt væri að mynda stjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks sem hefði nauman meirihluta á bak við sig eða 32 þingmenn. Fleiri möguleikar finnast.

Þó formaður Samfylkingar hafi lýst því yfir að hann muni ekki vinna með Sjálfstæðisflokki eða Miðflokki í ríkisstjórn, þá dettur fáum í hug að trúa því. Reynslan sýnir að þegar flokkar standa frammi fyrir því að komast í ríkisstjórn þá vega gamlar yfirlýsingar eða prinsipp ekki þungt. Ráðherrastólar skipta miklu meira máli. Það sýndi sig best þegar Sjálfstæðisflokkurinn gekk inn í stjórnarsamstarf undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, leiðtoga sósíalista, með Steingrím J. sem forseta þingsins.

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn lét það yfir sig ganga er allt til sölu í íslenskum stjórnmálum fyrir ráðherrastóla.