Nú reynir á Fjármálaeftirlitið vegna skuggastjórnunar verkalýðsforstjóra

Fjármálaeftirlitinu ber að hafa eftirlit með hugsanlegri skuggastjórnun í fjármálafyrirtækjum eins og bönkum, vátryggingarfélögum og lífeyrissjóðum.

Ef áhrifamenn reyna að hafa afskipti af störfum stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum - eða stofnunum, þá er það brot á reglum og jafnvel lögbrot ef um alvarleg eða afdrifarík afskipti er að ræða.

Sumir verkalýðsforstjórar hafa að undanförnu ekkert reynt að fela afskipti sín af stjórnum lífeyrissjóða og beinlínis haft í hótunum við fulltrúa í stjórnum þeirra sem valdir eru af verkalýðsfélögum. Þeir hafa ekki hikað við að freista þess að tengja mögulegar fjárfestingar sumra sjóða í hlutabréfum við deilur um kjarasamning flugfreyja og Icelandair. Þetta er algerlega óheimilt og skýlaust brot sem ekki er hægt að una við. Ábyrgð kjörinna stjórnarmanna er skýr eins og vald þeirra. Aðilar utan stjórna eiga ekki að reyna að hafa áhrif á störf þeirra.
Fjármálaeftirlitinu ber að hafa tafarlaus afskipti af brotum af þessu tagi. Eftirlitið hefur hikað fram að þessu og virðist hreinlega ekki þora að ávíta Ragnar Þór Ingólfsson og Drífu Snædal sem gengið hafa harðast fram. Eru þau heilagar kýr? Eða er Fjármálaeftirlitið bara svona aumt og kjarklaust?

Úr því að verkalýðsforstjórar hafa gengist við brotum sínum varðandi skuggastjórnun, þá ber að refsa þeim á viðeigandi hátt.

Sleifarlag á ekki að líðast því engir eru undanþegnir lögum og reglum.

Það eru engar heilagar kýr!